Innlent

Þiggjendum fjárhagsaðstoðar fækkar um þrjú hundruð

Jón Hákon Haraldsson skrifar
Magnús Már Guðmundsson
Magnús Már Guðmundsson
Þeim sem þiggja fjárhagsaðstoð til framfærslu hjá Reykjavíkurborg hefur fækkað um 10,9 prósent í ár. Þeir voru 3.080 á tímabilinu janúar til október 2014 en fækkaði niður í 2.745 á sama tímabili í ár.

Kristjana Gunnarsdóttir, sviðsstjóri á velferðarsviði Reykjavíkurborgar, segir að þróunina megi fyrst og fremst skýra með því að möguleikar á atvinnumarkaði hafi aukist og dregið úr atvinnuleysi.

„Svo höfum við á velferðarsviði verið með ýmis átaksverkefni í gangi til þess að hvetja fólk þannig að það geti tekið störf þegar þau bjóðast. Þannig að ég held að þetta sé sambland af þessu,“ segir Kristjana. Starfsfólk á velferðarsviði hafi veitt þessum hópi fólks sérstaka athygli og hvatningu með stuðningi og ráðgjöf.

Kristjana segir að fólki sem þiggur fjárhagsaðstoð hafi byrjað að fækka 2011. En því hafi fækkað mjög ört á þessu ári. Hún fagnar þessari þróun.

„Og það sem er sérstakt fagnaðarefni er að ungu fólki er að fækka mjög mikið hjá okkur og komast í vinnu.“

Magnús Már Guðmundsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í velferðarráði Reykjavíkurborgar, tekur undir með Kristjönu.

„Ég held það óski þess enginn að vera á fjárhagsaðstoð,“ segir Magnús Már. Samstarf við starfsendurhæfinguna Janus og starfsendurhæfingarsjóðinn Virk, Vinnumálastofnun og fleiri hafi skipt mjög miklu máli.

„Auðvitað er ekkert hægt að horfa fram hjá því að þetta er gott fyrir samfélagið að fá fleiri á vinnumarkaðinn,“ segir Magnús og bætir því við að fjárhagsaðstoð sé stór kostnaðarliður hjá borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×