Lífið

Selur allt lykla- kippusafnið sitt

Gísli Ágúst Halldórsson
Gísli Ágúst Halldórsson Vísir/Björn Árnason
Gísli Ágúst Halldórsson hefur verið safnari frá því að hann man eftir sér. Hann á meðal annars hátt í 400 lyklakippur sem hann hyggst nú selja.

„Ég veit ekki alveg hvað þetta er, kannski er maður að fylla upp í eitthvert skarð með því að búa eitthvað til, safna einhverju saman,“ segir Gísli. Lyklakippurnar segir hann koma úr ýmsum áttum og þær vera jafn ólíkar og þær eru margar. „Ég er búinn að vera með þetta í geymslu í mörg ár. Þetta eru nú mest kippur sem ég hef fengið gefins,“ segir hann.

Kippurnar hafa mismikla þýðingu fyrir hann. „Sumar hafa meiri meiningu fyrir mig en aðrar, það er þá aðallega einhver minning sem maður tengir við þær hvort sem það er vegna manneskjunnar sem gaf mér hana eða ef þetta er kippa af bíl sem ég hef átt.“

SAFNIÐ Svona líta 400 lyklakippur út.
Gísli kemur úr mikilli söfnunarfjölskyldu. Pabbi hans hefur safnað að sér hlutum tengdum hernum og bróðir hans á stórt safn af bjórdósum og mynt. „Sjálfur hef ég átt rosalegt Elvis-safn, eldspýtustokkasafn og svo hef ég átt yfir 100 bíla og mótorhjól.“

Hann segir það að safna vera þörf fyrir að búa til eitthvað sem lítur vel út fyrir augað. „Þegar maður safnar þá verður safnið að passa saman sem heild. Maður verður að vera opinn fyrir því að hafa fjölbreytni, því þetta þarf að passa saman og mynda heild. Þó manni finnist kannski einhver hlutur ekki flottur einn og sér, passar hann kannski vel við heildina,“ segir Gísli. 

Þeir sem hafa áhuga á því að eignast safnið hans Gísla geta sett sig í samband við hann í gegnum Facebook. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.