Fótbolti

Beckham elskar Zlatan og vill fá hann í nýja liðið sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Beckham og Zlatan Ibrahimovic á góðri stundu.
David Beckham og Zlatan Ibrahimovic á góðri stundu. Vísir/Getty
David Beckham hefur mikið álit á sænska landsliðsframherjanum Zlatan Ibrahimovic og enska knattspyrnugoðsögnin lýsti yfir aðdáun sinni á Svíanum í viðtali við Sportbladet í Svíþjóð.

David Beckham og Zlatan Ibrahimovic léku saman hjá Paris Saint-Germain á sínum tíma en þeir urðu franskir meistarar saman vorið 2013. Beckham segir að þeir hafi náð vel saman og haldi góðu sambandi í dag.

„Ég hafði aldrei áður hitt mann sem var jafneinbeittur á æfingum eða í leikjum. Þegar ég kom til París þá vissi að hann væri afar hæfileikaríkur leikmaður en ég hafði enga hugmynd að hann væri svona harður af sér og svo miskunnarlaus gagnvart sér sjálfum," sagði David Beckham og bætti við:

„Hann er fæddur sigurvegari. Hann er skrímsli með rosalegt sjálfstraust og ég er einn af hans mestu aðdáendum," sagði Beckham.

Beckham er greinilega að nota tækifærið til að mýkja Zlatan Ibrahimovic upp því hann er að fara að stofna liði í bandarísku atvinnumannadeildinni.

„Við höfum fengið leyfi til að byggja leikvang. Þetta mun taka þrjú ár kannski tvö ár í minnsta lagi. Ef Ibrahimovic verður ekki búinn að leggja skóna á hilluna þá vil ég semja við hann," sagði Beckham.

„Hann er magnaður íþróttamaður og það væri ekkert nema jákvætt að fá hann inn í liðið. Hver vill ekki fá leikmann sem er tilbúinn til gera allt til að vinna," sagði Beckham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×