Innlent

Ungur Íslendingur vann rúmar tíu milljónir

Jakob Bjarnar skrifar
Hinn ungi, getspaki maður vann rúmar 10 milljónir núna en fyrr í mánuðinum vann hann rúmar 4 milljónir.
Hinn ungi, getspaki maður vann rúmar 10 milljónir núna en fyrr í mánuðinum vann hann rúmar 4 milljónir.
Veðmálaspekingar hjá Betsson klóra sér nú í kollinum yfir hreint ótrúlegum getraunaseðli sem er kominn fram í dagsljósið. Ungur Íslendingur gerði sér lítið fyrir um þar síðustu helgi, veðjaði á 13 leiki, allt heimasigra og þeir lágu allir. Að sögn þeirra hjá Betsson er þetta einstakt í sögu veðmálafyrirtækisins.

Hinn ungi Íslendingur lagði undir 50 evrur, veðjaði á 13 leiki eins og áður segir og í vinning kom rúmar 73 þúsund Evrur sem gera rúmar 10 milljónir íslenskra króna.Vísir heyrði ofan í þennan unga mann, sem býr á Suðurlandinu og er rétt liðlega tvítugur.

Lagðist á gólfið og grét af gleði

„Ég byrjaði á því að setja á líklegustu leikina, sem voru með líklega stuðla. Það voru nokkrir leikir sem ég var öruggur með þó þeir enduðu bara með eins marks mun,“ segir hinn getspaki viðmælandi Vísis.

Þegar seðillinn er skoðaður má sjá að hann hefur valið leiki á Spáni, Portúgal, Þýskalandi, Grikklandi, Englandi, Ítalíu og Hollandi.

„Já, ég var nokkuð öruggur með Ajax-leikinn. Ítalska B-deildin var nú meira svona flipp, ég bjóst eiginlega ekki við því að það myndi fara þannig.“

Veðmálaseðillinn góði. Hér má sjá hvernig hinn ungi Íslendingur hagaði veðmálum sínum.
Okkar maður fylgdist grannt með gangi mála, fylgdist með leikjunum. „Ég held að það sé ekki hægt að ímynda sér betri jólagjöf en þessa fyrir jólin. Ég lagðist niður grenjandi af gleði þegar síðasti leikurinn var flautaður af.“

Vann rúmar fjórar milljónir fyrir hálfum mánuði

Viðmælandi Vísis er alger fótboltasérfræðingur og hefur fylgst með knattspyrnu gaumgæfilega allt frá því að hann var fimm ára gamall og býr því yfir viðamikilli þekkingu, þó ungur sé að árum. „Já, ég hef unnið áður. Vann rúmar fjórar milljónir fyrir tveimur þremur vikum, hef unnið 14,2 bara í desember. Þannig að þetta er góður mánuður fyrir mig og móður mína.“

Þessi ungi maður býr hjá móður sinni. „Eins og er,“ segir hann en þau eru tvö í heimili. Móðir hans á því von á góðri jólagjöf. „Já, nú er búin að fá eina fyrirfram og fær aðra á aðfangadag. Rosalega skemmtilegt,“ segir hinn getspaki viðmælandi Vísis. Sem er atvinnulaus sem stendur og er að leita sér að vinnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×