Innlent

Herdís endurkjörin varaforseti Feneyjanefndar

Atli Ísleifsson skrifar
Ný stjórn Feneyjanefndarinnar svokölluðu.
Ný stjórn Feneyjanefndarinnar svokölluðu. Mynd/utanríkisráðuneytið
Herdís Þorgeirsdóttir var endurkjörin varaforseti nefndar Evrópuráðsins um lýðræði með lögum síðasta sunnudag. Nefndin er betur þekkt sem Feneyjanefndin.

Í frétt á vef utanríkisráðuneytisins segir að Herdís hafi verið sú eina af þremur varaforsetum kjörnum í síðustu kosningum 2013 sem hlaut endurkjör.

„Feneyjanefndin er ráðgefandi aðili Evrópuráðsins um stjórnskipuleg málefni og gætir áhrifa hennar langt út fyrir raðir þess. Hlutverk Feneyjanefndar er að ráðleggja aðildarríkjum og aðstoða þau við aðlaga löggjöf og stofnanir til samræmis við evrópsk og alþjóðleg viðmið á sviði lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur vitnað til álita nefndarinnar í tugum dómsmála undanfarin ár.

Aðild að Feneyjanefnd eiga 60 ríki, þar af öll 47 aðildarríki Evrópuráðsins auk Bandaríkjanna, Brasilíu, Chile, Perú, Mexíkó, Ísraels, Suður-Kóreu, Alsírs, Marokkó, Túnis og nokkurra ríkja í Mið-Asíu.

Í nefndinni eiga sæti lögfræðingar skipaðir af aðildarríkjum en sem starfa sjálfstætt og óháð þeim. Forseti nefndarinnar er Ítalinn Gianni Buquicchio sem hefur verið forseti frá 2009.

Herdís var skipuð aðalfulltrúi Íslands í Feneyjanefnd 2010 og hefur gegnt störfum fyrir nefndina síðan bæði sem sérfræðingur á sviði mannréttinda og stjórnskipunar og undanfarin ár sem varaforseti í samskiptum við aðildarríkin,“ segir í fréttinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.