Menning

Fannst að ég gæti byrjað aftur að skrifa þessa bók

Magnús Guðmundsson skrifar
Dagný Kristjánsdóttir segir að góðar barnabækur séu líka fyrir fullorðna en það sé ekki hægt að snúa því við.
Dagný Kristjánsdóttir segir að góðar barnabækur séu líka fyrir fullorðna en það sé ekki hægt að snúa því við. Visir/GVA
Barnabókmenntir eru sérstakt og áhugavert bókmenntasvið sem hefur í raun mikil áhrif á líf okkar og hugmyndaheim. Dagný Kristjánsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, hefur rannsakað upphaf íslenskra barnabókmennta og er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir bókina Bókabörn, Íslenskar barnabókmenntir verða til. Þar fjallar Dagný um tilurð íslenskra barnabókmennta og þá höfunda sem fyrstir skrifuðu um og fyrir íslensk börn, þá Jónas Hallgrímsson, Nonna, Sigurbjörn Sveinsson og Jóhann Magnús Bjarnason.

Barnið verður til

Dagný segir að hvatinn að baki þessu verki hafi einfaldlega verið að hana hafi langað til þess að skrifa um upphaf íslenskra barnabóka. „Til þess að ná utan um þetta þá byrja ég á því að skrifa um upphaf barnsins, ef svo má að orði komast, því barnabækur gátu ekki orðið til fyrr en menn höfðu einhverja hugmynd um börn sem vitsmunaverur. Til að byrja með höfðu menn í raun ekki skýra hugmynd um sérstöðu barna. Við höfum öll verið börn en við munum það ekki því fullorðinsárin leggjast yfir bernskuna og ýta henni burt.

Þess vegna hafa menn verið að búa til skilning á því hvað barn og bernska er í gegnum tíðina og sá skilningur er alltaf að breytast. Ef barnið er óskrifað blað getur það verið hvað sem er. Þannig hefur barnið til að mynda verið túlkað sem illt af því að það er fætt í synd, erfðasynd, og þá þarf að hreinsa það af henni. Eða það hefur verið upphafið í hæstu hæðir, engill og næst guði í sakleysi sínu. En andstæðurnar í því hvernig barnið hefur verið túlkað eru sögulegar og þær fylgja því alveg inn í nútíma barnabækur.“

Dagný Kristjánsdóttir segir að góðar barnabækur séu líka fyrir fullorðna en það sé ekki hægt að snúa því við. fréttablaðið/gva
Líka fyrir fullorðna

Það er umhugsunarefni hvort þetta sé orsök þess að það sé sterkari mórölsk krafa á barnabókmenntir en aðrar bókmenntir. Dagný segir að óneitanlega sé vísifingurinn enn á lofti í sumum bókum fyrir minni börnin. „Ég hugsa að mjög margir sem skrifa fyrir börn séu meðvitaðir um að þeir séu að skrifa fyrir börn. Andri Snær Magnason kom einu sinni í tíma til okkar í barna- og unglingabókanámskeiði og var spurður að þessu. hann sagði að hann væri vissulega meðvitaður um að hann væri að skrifa fyrir börn og þar af leiðandi segði hann ekki hvað sem væri. Barnið er alltaf til staðar í barnabókinni sem innbyggður lesandi eða áheyrandi en hinn fullorðni er það líka því bækurnar eru skrifaðar af fullorðnum. Þetta er í raun flókið bókmenntasvið.

Þú getur sagt að góðar barnabækur séu líka fyrir fullorðna en þú getur ekki snúið því við. Það er hægt að vera svo mikill „barnavinur“ að segja að barnabækur séu ekki nógu góðar fyrir börn, þau séu svo klár að þau eigi bara að lesa fullorðinsbækur en það er bara rugl. Bestu barnabækurnar eru þannig að barnið þroskast með þeim, sér meira eftir því sem það eldist. Barnabækur eru sérstakt bókmenntasvið en ekki bókmenntagrein vegna þess að þetta er svið sem rúmar allar greinarnar nema reyndar ástarsögur. Ástarsögur fyrir börn er líklega eina tabúið sem eftir er í barnabókmenntum dagsins í dag.“

Alþjóðlegt bókmenntasvið

Dagný bendir á að ákveðinn tvískinnungur ríki gagnvart barnabókum og að hann skili sér líka til barnabókahöfunda. „Það er oft ástundað að segja að ef höfundur skrifar barnabók þá sé hann barnslegur. Og ef hann er barnslegur þá er hann saklaus og einfaldur eins og forsetinn segir að Íslendingar séu. Sá sem lítur niður á barnabókmenntir og höfunda þeirra er í raun aðeins að endurspegla viðhorf sitt til bernskunnar og segir mögulega eitthvað um sjálfan sig í leiðinni. 

En í Bókabörnum er ég að skrifa um fyrstu fjóra íslensku barnabókahöfundana, þá Jónas Hallgrímsson, Nonna, Sigurbjörn Sveinsson og Vestur-Íslendinginn Jóhann Magnús Bjarnason. Þessir menn voru hvorki einfaldir né barnslegir, svo mikið er víst.“

Dagný segir að það sé þó ekki einhver íslensk sérstaða sem einkenni verk þessara höfunda. „Málið er að barnabækur eru í eðli sínu afskaplega alþjóðlegt bókmenntasvið. Mörg íslensk börn halda að Astrid Lindgren hafi verið íslensk og börn eru ekkert í því að gera greinarmun á þessu. Klassískar barnabækur hafa flætt yfir öll lönd. Fyrstu íslensku barnabækurnar voru líka strax ýmist íslenskar eða þýddar eða hvort tveggja.“

Dagný Kristjánsdóttir
Mótandi afl

Á undan barnabókunum komu barnaljóð og þulur í munnlegri hefð sem konur kváðu fyrir börnin. En fyrstu íslensku barnabókahöfundarnir voru karlmenn og Dagný segir að þeir hafi vissulega skrifað drengjasögur sem hafi verið leiðandi lengi vel. „Torfhildur Hólm skrifaði barnasögur og ævintýri undir lok nítjándu aldar en það eru unglingasögur og lítill munur á þeim og svona nýrómantískum sögum. Hún skrifaði tvö sagnasöfn og það er merkilegt að á meðan karlarnir reyndu að halda því á lofti að bækur þeirra væri ekki bara fyrir börn undirstrikaði Torfhildur að hún skrifaði bara fyrir börn en mér finnast sögur hennar meiri fullorðins- en barnabækur. Það er eins og þeir skammist sín svolítið fyrir að vera að skrifa fyrir börn en hún gerir það alls ekki.“

Bækur eru ákaflega mótandi afl, einkum á börn og ungmenni, og Dagný telur að fyrstu íslensku barnabókahöfundarnir hafi vissulega haft mikil áhrif á kynslóðirnar sem ólust upp við að lesa bækurnar þeirra. „Þessar bækur voru lesnar upp til agna. Nonnabækurnar voru t.d. mjög mikið lesnar en þær komu seinna til Íslands en Þýskalands, Danmerkur og út um allan heim. Þær voru þýddar nokkru eftir sinn ritunartíma á íslensku. En Sigurbjörn Sveinsson skrifaði beint fyrir íslensk sveitabörn og bækur hans voru mjög vinsælar. Þær eru einfaldari en bækur Nonna.

Jóhann Magnús Bjarnason var afar athyglisverður. Þegar maður les Eirík Hansson getur maður ekki annað en hugsað um börn þeirra flóttamanna sem flýja lönd sín undan örbirgð og harðræði eins og tugþúsundir Íslendinga undir lok aldarinnar. Jóhann Magnús var Vestur-Íslendingur sem flutti til Kanada níu ára gamall og var fyrst í stað mállaus í framandi heimi og hann lýsir hrakningum þessara barna sem fóru í gegnum þetta. Söguhetjan Eiríkur Hansson verður vegalaus í nýju landi. Hann skrifaði dramatískar sögur. Hann bjó og starfaði í Kanada í sjötíu ár en hann skrifar engu að síður á íslensku. Hann var í enskumælandi landi en skrifar alla sína tíð bækur á máli sem samfélagið í kringum hann skildi ekki. Svona reyndi hann að bræða saman uppruna sinn og nýja landið. En í raun jaðarsetur hann sig á tvöfaldan hátt, bæði þar og hér.

Drengjabækur þessara höfunda höfðu margar hverjar feikileg mótunaráhrif á stráka og margar þessara bóka, t.d. bæði Nonnabækurnar og bækur Jóhanns Magnúsar, eru eftir höfunda sem bjuggu í útlöndum frá barnsaldri. En þeir eru alltaf að skrifa um þennan kjarna í persónuleikanum sem varð til hér heima og verk þeirra leita ákaflega sterkt heim. Nonni lifði alla tíð hálfur í þessum veruleika því hann hélt ógrynni fyrirlestra um allan heim um bernsku sína hér á Íslandi. Nonni er gríðarlega góður höfundur og það eru margar áhrifaríkar sögur sem koma til manns í kringum upphaf íslenskra barnabókmennta. Mér fannst ég gæti byrjað aftur að skrifa þessa bók þegar ég var búin að eyða í hana árum – það var svo margt sem hefði verið hægt að halda áfram með.“

Börn búa að lestri

Þessi jólin er útgáfa íslenskra barnabóka með blómlegasta móti og Dagný segir að það sé gleðiefni hversu mikið af þessum bókum eru virkilega góðar bækur eftir stórgóða höfunda. Ekki veitir af nú þegar íslenskan á óneitanlega undir högg að sækja. „Lestur góðra bóka, yndislestur, er mikilvægur þáttur í því að styrkja tungumálið en það er auðvitað háð því að bókum sé haldið að börnum. Það skiptir öllu máli að foreldrar gefi sér tíma til þess að lesa fyrir börnin sín og ég óttast að það sé á undanhaldi, því miður. Börn búa hins vegar alltaf að því ef það er lesið fyrir þau og það er ekki aðeins tungumálsins vegna heldur einnig vegna frásagnarinnar sjálfrar. Það að læra að segja frá og koma frá sér sögu, merkingu og hugsun er grunnurinn að hugsun, framsetningu og samtölum – grunnurinn að öllu öðru eiginlega.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×