Innlent

Haustrall lofar góðu með þorsk og ýsu

Svavar Hávarðsson skrifar
Niðurstöðurnar lofa góðu um aflaaukningu næsta fiskveiðiár.
Niðurstöðurnar lofa góðu um aflaaukningu næsta fiskveiðiár. fréttablaðið/óskar
Niðurstöður úr haustralli Hafrannsóknastofnunar lofa mjög góðu. Stofnmæling á þorski er sú hagstæðasta á þeim tuttugu árum sem mælingarnar hafa verið gerðar. Ýsustofninn sýnir jákvæð merki um að hann sé að hjarna við eftir mörg mögur ár.

Haustrallið, eða stofnmæling botnfiska að haustlagi, fór fram dagana 7. október til 9. nóvember. Rannsóknasvæðið var umhverfis Ísland allt niður á 1.500 metra dýpi og alls var togað með botnvörpu á 374 stöðvum. Helsta markmið haustrallsins er að styrkja mat á stofnstærð helstu botnlægra nytjastofna á Íslandsmiðum með sérstakri áherslu á djúpkarfa, grálúðu og fleiri djúpsjávarfiska.

Heildarvísitala þorsks mældist sú hæsta frá upphafi stofnmælingarinnar árið 1996 og hefur farið hratt vaxandi síðastliðin átta ár. Hún er nú tvöfalt hærri en árin 2008-2009. Fyrstu vísbendingar um árganginn frá 2015 gefa til kynna að hann sé um meðalstærð, en það mun skýrast betur að ári.

Vísbendingar eru um að 2014 árgangur þorsks sé stór og sá stærsti síðan mælingar hófust árið 1996. Svipað fékkst af öðrum tegundum í stofnmælingu að hausti árið 2015 og árið 2014 og eru vísitölur sumra tegunda þær hæstu frá upphafi rannsóknanna. Vísbendingar eru um að 2014 og 2015 árgangar ýsu séu yfir meðalstærð eftir langvarandi lélega nýliðun.

Niðurstöður mælingarinnar sem Hafrannsóknastofnun kynnti í gær eru mikilvægur þáttur árlegrar úttektar á ástandi helstu nytjastofna við landið sem lýkur með ráðgjöf í júní 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×