Innlent

Taka níu milljarða lán til vélakaupa

Svavar Hávarðsson skrifar
Stefnt er að því að virkjunin hefji rekstur haustið 2017.
Stefnt er að því að virkjunin hefji rekstur haustið 2017. mynd/Landsvirkjun
Landsvirkjun hefur undirritað lánasamning, svokallaða verktakafjármögnun, vegna verksamnings um tvær 45 MW vélasamstæður frá Fuji Electric. Vélarnar eru fyrir Þeistareykjavirkjun sem á að hefja vinnslu árið 2017.

Japanska lánastofnunin Japan Bank for International Cooperation (JBIC) veitir lán að fjárhæð allt að 34 milljónir Bandaríkjadala á föstum vöxtum. Þá munu Citibank Japan Ltd. (í forstöðuhlutverki), Bank of Yokohama og Commerzbank AG, Tokyo Branch einnig veita lán að fjárhæð allt að 34 milljónir Bandaríkjadala á fljótandi vöxtum með ábyrgð frá Nippon Export and Investment Insurance (NEXI) og nemur heildarlánsfjárhæð því allt að 68 milljónum Bandaríkjadala – eða níu milljörðum króna að núvirði.

Lánið er til 20 ára og er veitt án ríkisábyrgðar. Þetta er í fyrsta sinn sem umræddar lánastofnanir veita slíkt lán til hátekju-OECD-ríkis vegna verkefnis sem tengt er endurnýjanlegri orku. Takanawa Japan KK og Citigroup voru ráðgjafar Landsvirkjunar við fjármögnunina.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir um tímamótasamning að ræða. „Þetta er tímamótasamningur fyrir Ísland og Japan þar sem þetta er í fyrsta sinn sem Ísland fær fjármögnun með þessum hætti frá Japan. Við erum virkilega ánægð með þann stuðning sem japanskar lánastofnanir veita til fjármögnunar Þeistareykjavirkjunar,“ segir Hörður í tilkynningu frá fyrirtækinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×