Innlent

Hjúkrunarfræðingar segja fréttaflutning af launum sínum villandi

Bjarki Ármannsson skrifar
"Það er verið að bera saman heildarlaun hjúkrunarfræðinga og lækna á Íslandi við dagvinnulaun annars staðar,“ segir Ólafur.
"Það er verið að bera saman heildarlaun hjúkrunarfræðinga og lækna á Íslandi við dagvinnulaun annars staðar,“ segir Ólafur. Vísir
Formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) segir það ósanngjarnt að bera saman heildarlaun íslenskra hjúkrunarfræðinga við dagvinnulaun á hinum Norðurlöndunum. Mikil óánægja ríki innan félagsins vegna fréttar Morgunblaðsins í dag sem fjallaði um launahækkanir lækna og hjúkrunarfræðinga hér á landi miðað við í Danmörku, Svíþjóð og Noregi.

Samkvæmt tölum í fréttinni sem birtist í dag eru föst mánaðarlaun lækna og hjúkrunarfræðinga á Íslandi hærri en í Svíþjóð en lægri en í Danmörku og Noregi. Heildarlaun á Íslandi, með vaktaálagi og yfirvinnugreiðslum, eru þó einnig birt við hlið dagvinnulauna á súluritum og segir Ólafur G. Skúlason, formaður FÍH, þá framsetningu villandi.

„Það er verið að bera saman heildarlaun hjúkrunarfræðinga og lækna á Íslandi við dagvinnulaun annars staðar,“ segir Ólafur. „Það er ekki réttur samanburður. Ef það á að bera saman laun vaktavinnumanna, þá á að bera dagvinnulaun saman við dagvinnulaun og heildarlaun saman við heildarlaun. Hér er verið að bera saman epli og appelsínur.“

Lægra vaktaálag ytra en hærri laun

Í Morgunblaðinu er haft eftir Hannesi G. Sigurðarsyni, aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, að greidd mánaðarlaun þessarra stétta geti verið hærri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum þó grunnlaun séu lægri vegna þess að vaktaálag sé mun hærra á Íslandi en þekkist annars staðar.

„Vaktaálagið er lægra á Norðurlöndunum, prósentulega séð,“ segir Ólafur. „En þar eru hærri laun. Það skiptir ekki máli þótt álagið sé eitthvað lægra í prósentum séð, það er heildartalan sem skiptir máli.“

FÍH hefur sent frá sér tilkynningu þar sem framsetning þessara upplýsinga er gagnrýnd og samkvæmt Ólafi eru hjúkrunarfræðingar almennt mjög ósáttir við fréttina. Ekki sé þó búið að ræða neinar frekari aðgerðir en bara að vekja athygli á óánægjunni með samanburðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×