Innlent

Sagðist vera of mikill smekkmaður til að kíkja undir pilsfald Vigdísar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Össur og Vigdís tókust létt á í þingsal í dag.
Össur og Vigdís tókust létt á í þingsal í dag. vísir/ernir
Áhugaverð uppákoma varð á Alþingi í dag þegar alþingismenn tóku aftur til máls um fjárlög næsta árs eftir fundarhlé í hádeginu.

Össur Skarphéðinsson , þingmaður Samfylkingar, tók fyrstur til máls eftir hlé og hafði staðið í ræðupúlti í um hálfa klukkustund og skotið hart á stjórnarflokkana áður en formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, ákvað að skerast í leikinn.

Össur hafði þá skömmu áður mært verk fyrri ríkisstjórnar og sagt Sjálfstæðismenn vera „skíthræddasta“ við Steingrím J. Sigfússon. „Vegna þess að þeir hafa ekki þorað að koma hér og reyna að hrekja eitt einasta orð af því sem að hann var að segja hér um það sem verk fyrri ríkisstjórnar – enda er það ekki hægt. Nú er einfaldlega búið að klappa það í stein, ríkisreikninga þriggja ára,“ sagði Össur og bætti við: 

„Þannig að það er sama þó að menn flýi hér í felur í afherbergi og leiti skjóls undir pilsfaldi háttvirts formanns fjárlaganefndar, þeir geta ekki flúið þá staðreynd að svona var þetta eins og lýst var. Ég ætla bara að taka dæmi af sjálfum mér, herra forseti,“ sagði Össur en þá gekk Vigdís framfyrir pontuna og spurði Össur:

„Má bjóða þér undir pilsfaldinn?“ Össur fipaðist þá eilítið, áður en hann svaraði: „Ég er smekkmaður, ég er smekkmaður,“ og hélt því næst áfram með ræðuna.  

Orðaskiptin má sjá í myndbandinu hér að ofan þegar um 30 mínútur eru liðnar af ræðu Össurar.

Þingfundi var slitið á sjöunda tímanum í kvöld og hefur umræðu um fjárlög verið frestað. Næsti þingfundur hefur verið boðaður á mánudag klukkan 10:30. Önnur umræða um fjárlög hefur nú staðið yfir í um 46 klukkustundir og ekki sér enn fyrir endann á henni. Þingmenn stjórnarandstöðunnar þrýsta á ýmsar breytingar á fjárlagafrumvarpinu til að mynda varðandi lífeyrisgreiðslur, framlög til Landspítalans og að útvarpsgjald verði ekki lækkað. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×