Fótbolti

Gylfi finnur til ábyrgðar vegna brottvikningar Monk

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea, segir að hann beri sinn hluta af ábyrgðinni á því að Garry Monk var rekinn frá félaginu í síðustu viku.

Swansea hefur ekki gengið vel undir stjórn Monk síðustu vikurnar og því var ákveðið að leita að nýjum stjóra. Sú leit stendur enn yfir.

Swansea mátti þola svekkjandi tap gegn Manchester City um helgina, 2-1, en Gylfi Þór átti góðan leik og var óheppinn að skora ekki í leiknum.

Sjá einnig: Gylfi hefði getað skorað þrennu hjá Hart

„Ég tek sökina á mig og ég er viss um að hinir strákarnir gera það líka. Það erum við sem erum að spila leikina og við erum í þessari stöðu,“ sagði Gylfi við fjölmiðla eftir leikinn um helgina.

„Það er undir okkur leikmönnunum að vinna leikina en við höfum bara ekki staðið okkur nógu vel. Garry var náinn liðinu og hefur verið hér lengi. Það gerir þetta enn persónulegra,“ bætti Gylfi við.

„Ég er þó viss um að hann muni ná sér á strik og finna sér nýtt starf. Ég er líka viss um að hann óski okkur alls hins besta. Hann lagði virkilega mikið á sig og ég óska honum velfarnaðar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×