Innlent

Drukkinn sælkeri á Snorrabraut kveikti í

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Maðurinn var vistaður í fangageymslu svo hann færi sér ekki að voða.
Maðurinn var vistaður í fangageymslu svo hann færi sér ekki að voða. vísir/vilhelm
Eldamennska ölvaðs manns fór svo illilega úr böndunum á heimili hans við Snorrabraut í Reykjavík laust fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi að það kviknaði eldur í öllu saman.

Þegar nágrannar hans fundu reykjarlykt brugðust þeir skjótt við og voru búnir að slökkva þegar slökkviliðið kom á vettvang og varð þeim ölvaða ekki meint af reyknum, en hann var til öryggis vistaður í fangageymslu í nótt svo hann færi sér ekki að voða.

Það voru þó fleiri sem komust í hann krappann vegna matseldar í gærkvöldi. Þannig var haft afskipti af manni á veitingahúsi í miðborginni. Maðurinn hafði fengið afgreiddar veitingar en reyndist svo ekki borgunarmaður fyrir þeim þegar á hólminn var komið.

Lögreglan skarst í leikinn og var hún ekki lengi að átta sig á því að um svokallaðan góðvin lögreglunnar var að ræða. Maðurninn hafi ítrekað stundað það að hlaupa undan reikningum og hefur fengið dóm fyrir slík brot. Ekki fylgir sögunni hverjar málalyktir voru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×