Innlent

Rann til í hálku og fær skaðabætur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Konan rann til í hálku við vinnu sína. Myndin er úr safni.
Konan rann til í hálku við vinnu sína. Myndin er úr safni. Vísir/Stefán
Sorphreinsun Vilhelms Harðarsonar á Blönduósi hefur verið dæmd til að greiða konu á fimmtugsaldri á fimmtu milljón króna í bætur vegna slyss sem hún varð fyrir við vinnu síðla árs 2012. Konan starfaði við að leiðbeina viðskiptavinum við losun á mismunandi tegundum af sorpi.

Hún hafði unnið umrædda vinnu í nokkrar vikur og hafði nýlokið við að aðstoða viðskiptavin þegar hún, að eigin sögn, rann til í hálku og slasaði sig. Engin vitni urðu að slysinu en ekkert bendir til annars en að hún hafi runnið í hálkunni.

Konan var send til Reykjavíkur með sjúkraflugi. Fyrir liggur að hált var á planinu og hafði verkstjóri ætlað að ná í sand til að bera á planið í þeim tilgangi að hálkuverja það.

Fyrir dómi deildu konan og fyrirtækið um það að hversu miklu leyti fyrirtækið bar ábyrgð á óhappi konunnar sem hlaut 15 prósent örorku vegna slyssins. Dómurinn féllst á kröfu konunnar um bætur að tveimur þriðju en taldi hana þurfa að bera ábyrgð á þriðjungi tjóns síns sjálf. Það væri vegna þess að henni átti ekki að geta dulist að hált væri og hún hefði því átt að sýna ýtrustu aðgæslu er hún gekk um planið.

Konan fór fram á rúmar sjö milljónir króna í bætur en sorpfyrirtækið var dæmt til að greiða henni 4,7 milljónir króna. Dóminn í heild má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×