Innlent

Dæmdur fyrir að stinga af frá slysstað eftir framúrakstur á ísilögðum vegi

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá Þingeyri í Dýrafirði.
Frá Þingeyri í Dýrafirði. Vísir/GVA
Héraðsdómur Vestfjarða dæmdi í gær karlmann til að greiða 15 þúsund krónur í ríkissjóð yrir að stinga af eftir árekstur á Vestfjarðavegi í Dýrafirði þann 2. febrúar síðastliðinn.

Maðurinn hafði verið ákærður fyrir að láta bifreið sína rekast vísvitandi utan í vinstra afturhorn bifreiðar sem var fyrir framan bifreið mannsins. Samkvæmt ákærunni missti ökumaðurinn sem var fyrir framan manninn stjórn á bílnum sínum við ákeyrsluna svo hún snerist og rann þversum á yfir veginn.

Var maðurinn ákærður af embætti ríkissaksóknara fyrir að hafa þannig stofnað á ófyrirleitinn hátt lífi og heilsu þriggja einstaklinga sem voru í bílnum í hættu, en um var að ræða par og mánaðar gamlan son þeirra. 

Samkvæmt skýrslu lögreglu barst henni skömmu eftir hádegi mánudaginn 2. febrúar  tilkynning um að árekstur á Vestfjarðavegi til móts við Þingeyri og að sá sem varð valdur að honum hefði ekið vettvangi. 

Lögreglan sagðist hafa hitt manninn sem var ákærður á vettvangi og rætt við hann. Sagðist maðurinn hafa „bankað aðeins í afturhornið á bifreiðinni“ þar sem hann hafði ekki komist fram úr henni. Lögreglan hafði eftir manninum á vettvangi að hann hefði talið ökumanninn fyrir framan sig verið að hindra hann í að komast fram úr og hefði hann þess vegna ákveðið að aka aðeins utan í bifreiðina til að fá hann til að hleypa sér fram úr.

Fyrir dómi neitaði maðurinn hins vegar sök. Hann sagðist hafa margoft reynt að aka fram úr bílnum en ekki ávallt hefði bílnum verið ekið í veg fyrir hann. Sagði hann það hafa gerst ítrekað á leiðinni frá Önundarfirði yfir í Dýrafjörð. Þegar hann var rétt fyrir innan bæinn Gemlufall í Dýrafirði hefði hann náð að troða sér fram úr. Taldi hann bílana hafa nuddast örlítið saman. Þegar hann var kominn á Þingeyri hafi honum orðið ljóst að framljós vantaði á bílinn hans hægra megin að framan og því ekið til baka til að athuga hvort hann gæti endurheimt það. Það var þá sem lögreglan stöðvaði hann og sakaði hann um að hafa ekið á hina bifreiðina og stungið af frá slysstað.

Dómurinn taldi sannað að maðurinn hafi viðurkennt á vettvangi að hafa ekið viljandi á bílinn, og vísaði í vitnisburð lögreglumanna á vettvangi sem staðfestu þá frásögn fyrir dómi. 

Framburður mannsins fyrir dómi var hins vegar studdur af framburði þeirra sem voru í bílnum fyrir framan hann. Hafði ökumaðurinn sem sakaði manninn um að hafa ekið á bíl sinn dregið úr framburði sínum og sagði til að mynda að höggið sem hefði orðið við áreksturinn hefði ekki verið eins mikið og hann bar við í yfirheyrslu hjá lögreglu.

Maðurinn sagði fyrir dómi að bifreiðinni fyrir framan hann hefði alveg eins geta verið ekið fyrir hann og taldi ökumaður bílsins að bilun í hans bíl hefði getað valdið því að bíllinn rásaði til við fram úr aksturinn.

Taldi því dómurinn ósannað að maðurinn hefði ekið viljandi á bifreiðina. Þá taldi dómurinn manninn ekki sekan um að stofna lífi þeirra sem voru í bifreiðinni fyrir framan hann í háska með hátterni sínu þar sem aðstæður til fram úr aksturs hefðu verið góðar.

Hins vegar var hann fundinn sekur um að hafa stungið af frá slysstað og dæmdur til fimmtán þúsund króna sektar. Ef hann greiðir ekki sektina þarf hann að sitja í fangelsi í tvo daga. 

Sjá dóminn hér. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×