Innlent

„Erfitt að starfa hjá okkur síðustu dagana”

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Kristín María Gunnarsdóttir, staðgengill forstjóra Útlendingastofnunar, segir hart að embættinu sótt. Álagið hafi verið sérstaklega mikið undanfarna daga og telur umfjöllun um málefni hælis- og flóttamanna oft á tíðum óvægna.

„Það er búið að vera mikið álag og erfitt að starfa hjá okkur, síðustu dagana að minnsta kosti eftir þessa miklu og oft á tíðum óvægnu fjölmiðlaumfjöllun,” sagði hún í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. Aðspurð sagði hún áreitið töluvert en að reynt sé að líta fram hjá því sem fólk skrifi um stofnunina á netinu. „Við reynum að leggjast ekki yfir eitthvað slíkt, maður verður að reyna að bjarga sér í þessu,“ sagði Kristín.

„Fólk er að tjá sig við okkur, óneitanlega. En við getum ekki horft fram hjá því sem er að gerast í fjölmiðlum, það sjá það allir og fylgjast með það sem þar er að gerast.“

Umsóknum fjölgað um tæp 100%

Þá sagði hún umsóknum um hæli hér á landi hafa aukist um tæplega hundrað prósent. Reynt sé eftir fremsta megni að flýta málsmeðferð, en að til þess þurfi stofnunin fleira fagfólk og meira fjármagn.

„Það er búið að vera mikið álag á þessu ári. Til dæmis hefur fjöldi hælisleitenda á Íslandi aukist gríðarlega og það er nánast hundrað prósenta aukning á þessu ári miðað við í fyrra. Það segir sig sjálft að það þarfnast vinnu á ýmsum stöðum. Það eykur álagið hjá okkur og líka hjá kærunefnd útlendingamála, hjá lögreglunni sem tekur á móti fólki og lögreglu sem annast flutninga þegar þar að kemur,“ sagði Kristín.

Hlusta má á viðtalið við hana í heild í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×