Innlent

Bæjarstjóra Garðabæjar líst illa á að loka Arnarnesinu með hliði

Birgir Olgeirsson skrifar
Gunnar Einarsson efast um að það sé leyfilegt að loka heilu hverfi í þéttbýli. Greint var frá því í gær að íbúar á Arnarnesi vilji loka hverfið af með hliði.
Gunnar Einarsson efast um að það sé leyfilegt að loka heilu hverfi í þéttbýli. Greint var frá því í gær að íbúar á Arnarnesi vilji loka hverfið af með hliði. Vísir/Map.is
„Í stuttu máli þá lýst mér illa á þá hugmynd að loka hverfi í Garðabæ með hliði,“ segir Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, um þá hugmynd að loka hverfinu á Arnarnesi með hliði.

Þessi hugmynd var viðruð í Facebook-hópnum Garðabær-íbúar í gær af Friðriki Inga Friðrikssyni sem búsettur er á Arnarnesi. Sagðist hann hafa staðið þjófa að verki við að stela bensíni af bíl sem stóð við heimili hans og taldi hann kominn tíma á að setja upp hlið til að koma í veg fyrir að þjófar og skemmdarvargar komist inn á Arnarnesið. 

DV.is birt síðan viðtal við Friðrik sem sagði þjófnaði á Arnarnesi að aukast og fullyrti að ekki megi skilja eftir opinn bíl, þá sé farið inn í hann.

Gunnari Einarssyni, bæjarstjóra í Garðabæ, líst sem fyrr segir illa á þessa hugmynd að girða Arnarnesið af. „Auk þess sem ég sé ekki heimild fyrir því að loka heilum hverfum í þéttbýli,“ segir Gunnar í samtali við Vísi um málið. 

Hann segir bæjarfélagið hafa reynt að efla nágrannavörslu til að koma í veg fyrir innbrot og skemmdir.

„Við erum jafnframt að skoða möguleika á því að nota myndavélar sem fælingarmátt, það hafa önnur sveitarfélög gert. Jafnframt má benda á að íbúar geta komið fyrir myndavélum við sín hús,“ segir Gunnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×