Innlent

Ískrossmenn ósáttir að fá ekki Hvaleyrarvatn

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Eins og sést á hjólförunum virða ekki alveg allir akstursbann á ísilögðu Hvaleryrarvatni.
Eins og sést á hjólförunum virða ekki alveg allir akstursbann á ísilögðu Hvaleryrarvatni. vísir/gva
„Við erum litnir hornauga og flokkaðir sem minnihlutahópur,“ segir vélhjólamaðurinn Svavar Friðrik Smárason í bréfi þar sem hann óskar eftir leyfi bæjaryfirvalda í Hafnarfirði til ísaksturs á Hvaleyrarvatni.

Svavar rekur í bréfinu að um fimmtán manns séu í hópi vélhjólamanna sem stundi íscross, það er akstur á ís. Leyfi sem þeir hafi fengið árið 2001 til aksturs á Hvaleyrarvatni hafi verið afturkallað í desember 2008. Segir hann það vera dapurlegt að hópurinn hafi mætt miklu mótlæti hjá bæjaryfirvöldum.

„Lögreglan kemur iðulega og rekur okkur í burt án þess að gefa skýringar,“ skrifar Svavar sem kveður lögregluna vísa á bæjaryfirvöld. „Samkvæmt því sem ég kemst næst er hávaðamengun orsök þeirra kvartana sem borist hafa,“ heldur Svavar áfram. Þess vegna hafi bærinn bannað ísaksturinn.

„Svæðið við Hvaleyrarvatn er útivistarsvæði og opið öllum og fáum við í flestum tilfellum jákvæð viðbrögð almennings,“ segir Svavar og vitnar síðan til lagaákvæðis um almenna umferð um vötn: „Öllum er heimil för, þar með talið á farartækjum, um vötn, einnig á ísi, með þeim takmörkunum sem lög kveða á um, þó þannig að það valdi ekki truflun á veiðum manna.“

Þannig segir Svavar bæjaryfirvöld „eiga í miklum erfiðleikum“ með banna ísaksturinn.  Hvaleyrarvatn sé ekki í byggð og aðeins sé um að ræða þrjár til fimm vikur á ári. Miklu betra væri að leyfa þetta á einum stað þar sem hægt sé að hafa eftirlit í stað þess að menn séu að stelast til að fá útrás.

„Þetta myndi skapa betri samskipti á milli hjólamanna og annarra hópa en í dag upplifum við okkur alls staðar sem afgangs stærð og erum því síður móttækilegir fyrir vinsamlegum samskiptum þar sem það skiptir ekki miklu máli hvar við erum, alls staðar er amast við okkur,“ segir Svavar í bréfinu.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Hafnarfjarðar tók bréf Svavars fyrir í gær og áréttaði að allur ísakstur hafi verið óheimill á Hvaleyrarvatni frá árinu 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×