Innlent

„Þetta eru skemmtilegu útköllin sem við fáum“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Slökkviliðs-og sjúkraflutningamennirnir Birgir Þór Guðmundsson, Guðmundur Hreinsson, sem heldur á litlu stúlkunni sem kom í heiminn í morgun, Bjarni Ingimarsson og Lárus Kristinn Guðmundsson
Slökkviliðs-og sjúkraflutningamennirnir Birgir Þór Guðmundsson, Guðmundur Hreinsson, sem heldur á litlu stúlkunni sem kom í heiminn í morgun, Bjarni Ingimarsson og Lárus Kristinn Guðmundsson mynd/slökkvilið höfuðborgarsvæðisins
„Þetta eru skemmtilegu útköllin sem við fáum,“ segir Lárus Kristinn Guðmundsson, slökkviliðs-og sjúkraflutningamaður hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins en hann var einn fjögurra slökkviliðs-og sjúkraflutningamanna sem kallaðir voru út í fæðingu sem var farin af stað í heimahúsi um níuleytið í morgun.

„Við fáum að vita að það er kona að fara að eiga og það fara tveir bílar héðan frá varðstöðinni að Tunguhálsi. Ég var ásamt samstarfsmanni mínum, Birgi, í seinni bílnum sem kom á vettvang en þetta gekk mjög hratt fyrir sig því þegar við komum á staðinn var myndarleg stúlka komin í heiminn,“ segir Lárus.

Þeir Guðmundur Hreinsson og Bjarni Ingimarsson voru í fyrri bílnum og tóku því á móti barninu en Lárus segir að mjög stutt hafi verið á milli hríða hjá móðurinni þegar útkallið kom. Fæðingin gekk síðan vel og eru bæði móðir og dóttir við góða heilsu.

„Við biðum eftir ljósmóður sem kom á staðinn til að skoða barnið og móðurina en þetta gekk allt svo vel og þær báðar í góðu standi þannig að þær þurftu ekki að fara niður á fæðingardeild.“

Aðspurður hvort hann haldi að það hafi komið foreldrunum í opna skjöldu að barnið hafi fæðst heima segist hann halda að þau hafi frekar búist við því að fara á fæðingardeildina.

Okkar menn fengu það skemmtilega verkefni að taka á móti stúlkubarni í morgun.

Posted by Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs. on Thursday, 17 December 2015



Fleiri fréttir

Sjá meira


×