Innlent

„Held að viðkomandi hafi algjörlega skilið sneiðina og tekið það til sín“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
„Það er ekki hægt að láta bjóða sér það að menn séu flissandi hérna úti í sal undir áhrifum,“ sagði Lilja Rafney í ræðustól Alþingis í gær.
„Það er ekki hægt að láta bjóða sér það að menn séu flissandi hérna úti í sal undir áhrifum,“ sagði Lilja Rafney í ræðustól Alþingis í gær. Vísir/Vilhelm
„Það snöggfauk í mig í hita leiksins þegar ég lét þessi orð falla. Ég tel það bara eðlilegt að svona viðbrögð komi upp þegar maður hefur þá tilfinningu að viðkomandi sé undir einhverjum áhrifum,“ sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

Það vakti nokkra athygli í gær þegar Lilja Rafney sakaði þingmann í þingsal í gær um að vera undir áhrifum áfengis. Hún vill ekki gefa upp um hvaða þingmann sé að ræða, en segir ljóst að umræddur aðili hafi verið undir áhrifum.

„Ég held að allir sem séu orðnir eldri en tvævetur geri sér grein fyrir því þegar einhver er undir áhrifum. Það þarf ekki alltaf að vera að það sé endilega mikið eða eitthvað þvíumlíkt, en ég held þetta þurfi engar frekari útskýringar,“ sagði hún og bætti við að undir öðrum kringumstæðum hefði hún einungis rætt þetta mál við forseta Alþingis.

„Ég hefði ekki sagt þetta öllu jöfnu nema vegna þess að mér var svona misboðið. Þó maður sé orðinn vanur svona frammíköllum og truflun úr sal, og sé ekki alsaklaus af því sjálfur, þá getur það verið ansi þreytandi þegar menn sitja í sjö klukkutíma og það eru í gangi atkvæðaskýringar um stór og þung mál, að það sé ekki hægt að ljúka sínu máli í friði án þess að verða fyrir truflun.“

Þá vildi hún ekki svara til um það hvort hún hefði rætt þetta við þingmanninn sjálfan. „Ég held að viðkomandi hafi algjörlega skilið sneiðina og tekið það til sín.“

Hlusta má á viðtalið við Lilju í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Segir þingmann í salnum undir áhrifum

„Það er ekki hægt að láta bjóða sér það að menn séu flissandi hérna úti í sal undir áhrifum,“ sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×