Innlent

Tvö hús sömu gerðar í Eyjum hafa stórskemmst í stórviðrum

Svavar Hárvarðsson skrifar
Iðnaðarmenn frá Steina og Olla unnu við það í vikunni að loka þakinu og ganga frá þannig að ekki verði frekari skemmdir.
Iðnaðarmenn frá Steina og Olla unnu við það í vikunni að loka þakinu og ganga frá þannig að ekki verði frekari skemmdir. vísir/óskar
Húsið sem stórskemmdist í Vestmannaeyjum í aftakaveðrinu sem gekk yfir eyjarnar og landið allt 7. desember er annað af svokölluðum Sunhouse-húsum sem stórskemmist eða eyðileggst í aftakaveðri. Þriðja húsið var rifið fyrir nokkrum árum, en þau voru níu alls sem byggð voru eftir eldgosið í Heimaey árið 1973.

Eins og landsmönnum er í fersku minni voru fyrstu alvarlegu fréttirnar sem bárust í aftakaveðrinu fyrir rúmri viku að þak væri að rifna af húsi í Vestmannaeyjum, nánar tiltekið húsi við Smáragötu 34 sem stendur ofarlega í bænum. Húsið skemmdist mjög mikið en ekki er útséð með hvort mögulegt verður að gera við það.

Í miklu óveðri 9. október árið 2009 bárust áþekkar fréttir frá Vestmanneyjum en þá var það hús sömu gerðar sem eyðilagðist en var staðsett mun neðar í bænum – en líkt og nú fauk þakið af húsinu. Þriðja húsið af Sunhouse-gerð var rifið fyrir nokkrum árum og nýtt byggt á grunni þess – en ástæðurnar eru Fréttablaðinu ekki kunnar.

Í mikilli húsnæðiseklu strax eftir eldgosið 1974 voru flutt níu hús af þessari gerð, og flest voru tilbúin 1975. Um einingahús var að ræða, fimm voru reist við Smáragötu og hin fjögur neðar í bænum.

Nú hafa tvö hús skemmst og eyðilagst í óveðrum og eitt var rifið niður og nýtt hús byggt á grunni þess. Þetta þóttu hentug hús þar sem þau voru fljótreist á sama tíma og hundruð Vestmannaeyinga voru að flytja aftur heim á þessum árum.

Fréttablaðið hefur heyrt að í síðustu viku hafi þetta verið rætt í Vestmannaeyjum og einhverjir eru hugsi yfir því að þrjú hús séu ónýt þó aldur þeirra á þessu ári sé aðeins fjörutíu ár. Sögunni fylgir að grindverk hafi verið reist austan megin við húsin strax 1976 til að brjóta austanvind sem kom beint á húsin annars, en það mun ekki hafa tengst því á nokkurn hátt að húsunum væri vantreyst.

Sigurður Smári Benónýsson, skipulags- og byggingafulltrúi Vestmannaeyjabæjar, segir ekkert liggja fyrir um skemmdir á húsinu við Smáragötu, og ekkert hafi komið inn á borð bæjaryfirvalda um samhengi þess að tvö hús af Sunhouse-gerð hafi skemmst svo illa í vindi og eigandi þriðja hússins hafi ákveðið að rífa það. Hann hafi ekki upplýsingar um viðhald og fjölmarga aðra þætti sem þyrfti að gaumgæfa áður en stórar ályktanir yrðu dregnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×