Innlent

Kvöldfréttir Stöðvar 2: Stór hluti búslóðar sex manna fjölskyldu ónýtur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sex manna fjölskylda í Vestur-Landeyjum missti stóran hluta búslóðar sinnar í óveðrinu í gær.  Gámur með búslóð fjölskyldunnar fauk eins og sjá má í spilaranum hér að neðan.

Hann fór á loft, fór sex veltur og svo fór hann yfir sig. Þá opnaðist hurðin,“ segir Sigurður Ágúst Rúnarsson, íbúi á Álfhólahjáleigu.

„Það var ekkert hægt að gera. Við reyndum að fara út en við bara fukum. Það var ekkert hægt að festa þetta niður.“

Sigurður segist hafa heyrt frá kunnugum að gámar af þessari stærð geti fokið í 60 m/s.

„Þá hlýtur þetta að hafa verið þannig í hviðunum.“

Yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli sagðist í samtali við Vísi í gær aldrei hafa upplifað annað eins veður á svæðinu en sjálfur er hann uppalinn á Hvolsvelli.

Lillý Valgerður Pétursdóttir og Friðrik Þór Halldórsson voru á ferð um Suðurlandið í gær og í dag þar sem veður var afar slæmt. Fjallað verður um fjölskylduna og óveðrið á Suðurlandi í kvöldfréttum Stöðvar tvö í kvöld.

 

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×