Innlent

Borgin í viðræður um kvikmyndaver í Gufunesi

Sæunn Gísladóttir skrifar
Baltasar Kormákur vill byggja kvikmyndaver í Gufunesi.
Baltasar Kormákur vill byggja kvikmyndaver í Gufunesi. vísir/anton
Ef hugmyndir ganga eftir gæti kvikmyndaver risið í Gufunesi innan nokkurra ára. Borgarráð samþykkti í gær tillögu borgarstjóra um að ganga til viðræðna við RVK Studios um alhliða kvikmyndaver sem verður hluti af framtíðarmynd Gufuness og ein af forsendum í skipulagssamkeppni sem efnt verður til.

Baltasar Kormákur og stjórnendur RVK Studios óskuðu í sumar eftir viðræðum um kaup á hluta af gömlu Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi og úthlutun lóðar við húsið með það fyrir augum að byggja upp aðstöðu fyrir kvikmyndastarfsemi.

Dagur B. Eggertsson sagði í gær í samtali við Vísi að með þessu gætu kvikmyndaverkefni verið bæði tekin upp hér á landi og fullunnin. Kvikmyndaverið gæti því nýst undir bæði innlenda og erlenda framleiðslu. Dagur sagði að þetta gæti verið vinnustaður fyrir 200 manns. Í tillögu RVK Studios til Reykjavíkurborgar kemur fram að byggingin sem falast sé eftir samanstandi af um 3.000 fm bragga með áföstu 1.500 fm vélahúsi á fjórum hæðum.

Bragginn gæti hentað vel sem upptökuver og með breytingum væri hægt að innrétta vélahúsið fyrir aðra starfsemi fyrirtækisins. Útisvæðið fyrir norðan og austan við húsið sé mikilvægt fyrir starfsemina, en það yrði notað fyrir hvers kyns kvikmyndatökur utanhúss.

Í tillögunni kemur fram að áhugi sé fyrir því að hefja undirbúning fljótlega, með það fyrir augum að hefja starfsemi á Gufunesi innan tveggja ára. Samhliða verða teknar upp viðræður við Íslenska gámafélagið um flutning þess af svæðinu og er það í samræmi við ákvæði í leigusamningi. Leigutími þess rennur út í lok árs 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×