Innlent

Það ætti að vera á allra færi að detta inn á listmarkaðinn

Sæunn Gísladóttir skrifar
Kári Finnsson segir að erfitt sé að meta heildarveltuna á íslenska myndlistarmarkaðnum.
Kári Finnsson segir að erfitt sé að meta heildarveltuna á íslenska myndlistarmarkaðnum. Mynd/Björn Berg
„Það geta allir byrjað að safna myndlist, það geta allir tileinkað sér þetta með einum eða öðrum hætti. Listmarkaðurinn er ekki ýkja flókinn, hann er bara skemmtilegur. Að koma þessu til skila til áhorfenda var það sem við lögðum upp með á fundinum.“ Þetta segir Kári Finnsson, listfræðingur og hagfræðingur. Kári fjallaði um listmarkaðinn bæði hér á landi og í útlöndum á fræðslufundi VÍB undir yfirskriftinni Hvernig fjárfesti ég í myndlist?

Kári gerði grein fyrir listmarkaðnum á heimsvísu í erindi sínu. Heildarvelta hans á síðasta ári nam yfir fimmtíu milljörðum evra, eða 7.200 milljörðum íslenskra króna. Það jafngildir tæplega fjófaldri landsframleiðslu á Íslandi. Það hefur verið ákveðin sprenging á síðustu tíu árum. Veltan náði hæð árið 2007, tók síðan dýfu, en hefur nú náð sér aftur á strik og hefur aldrei verið jafn mikil.

Færri verk eru að seljast en áður, en fyrir hærri upphæðir. Til marks um þetta má nefna að dýrasta verk sem selt hefur verið, myndin Hvenær muntu gifta þig? eftir Paul Gauguin, var seld á 300 milljónir Bandaríkjadala, eða 39,5 milljarða íslenskra króna.

Kári vék að því hvort hægt væri að horfa á myndlist sem fjárfestingarkost. „Það sem ég reyndi að leggja áherslu á á fundinum er að myndlist sé eðlisólík fjárfestingarkostum eins og verðbréfum út af mörgum þáttum, það er ekki jafn mikill seljanleiki og þess háttar,“ segir hann. „Ég held að þeir sem standa sig best í að safna og eiga verðmætustu söfnin sé fólk sem er safnar af ástríðu. Þeir sem safna eftir augunum en ekki eftir verðmiðanum munu á endanum græða mest,“ segir Kári.

Börkur Arnarson, eigandi i8 gallerís, ræddi að erindi Kára loknu við hann um myndlistarheiminn á Íslandi. Kári sagði að hér á landi væri mjög blómstrandi og góð listasena og hefði verið um nokkurra ára bil. Hann segir hins vegar erfitt að meta veltuna á íslenskum myndlistarmarkaði þar sem gögn eru af afskaplega skornum skammti. „Ástæðan er sú að sala fer mikið fram utan hefðbundinna sölustaða, þá annaðhvort manna á milli eða beint frá listamönnum,“ segir Kári.

Rauði þráðurinn í samtali þeirra var að það er ekkert rétt eða rangt í myndlistarkaupum. Það er ekki endilega rétt að kaupa dýr verk eftir þekkta meistara. Besta leiðin til að byrja er að skoða málverk og reyna að finna sinn eigin smekk. Oft getur verið betra að kaupa ódýrari verk frá minna þekktum listamanni og fá kannski betri ávöxtun út úr því.

„Það skemmtilegasta við að safna list eftir samtímalistamenn er að þú getur fengið tækifæri til að kynnast listamönnum og fylgjast með þeim þroskast. Þetta er eitthvað sem þú getur gert alveg frá því að þú ert tvítugur. Þegar listamennirnir eru ungir þá eru verkin ódýr og það ætti að vera á allra færi að detta inn á þann markað,“ segir Kári.

Hvenær muntu gifta þig? eftir Gauguin er dýrasta verk sem selt hefur verið.Nordicphotos/Getty
Hér fyrir neðan má sjá upptöku af fundinum sem fram fór á fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×