Innlent

Veltir fyrir sér hvort jafnréttisbaráttan sé að staðna og vísar í Skrekksatriðið

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Sigríður spyr hvort jafnréttisbarátta sé að hverfa aftur til þess tíma þegar hún byggðist á því að upphefja konur á kostnað karla.
Sigríður spyr hvort jafnréttisbarátta sé að hverfa aftur til þess tíma þegar hún byggðist á því að upphefja konur á kostnað karla. vísir/pjetur
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, veltir fyrir sér hvort jafnréttisbaráttan sé að staðna. Hún vísar í siguratriði Skrekks, sem titlað er sem feminískur ljóða- og dansgjörningur, sem hún segir „gegnsýrt af staðalímyndum kvenréttindabaráttu 8. áratugarins“.

Hún veltir þessu upp í pistli sem hún ritaði í Sunnudagsmoggann.

„Eins og það er margt gott sem jafnréttisbarátta kvenna hefur skilið eftir sig og áorkað síðustu hundrað ár þá finnst mér það sorglegt ef hún er nú að staðna eða jafnvel hverfa aftur til þess tíma þegar hún gjarnan byggðist á því að upphefja konur á kostnað karla,“ skrifar Sigríður. Hún tekur fram að atriðið sjálft hafi verið glæsilegt; framsetning þess, framkoma og kraftur stúlknanna hafi gert atriðið að verðskulduðu siguratriði. Boðskapur þess hefði þó ekki höfðað til hennar.

Hagaskóli vann hæfileikakeppni grunnskóla í Reykjavík í ár.vísir/ernir
Sigríður segir að af viðtölum við höfunda verksins og söngtexta megi ráða að stúlkurnar séu mjög reiðar vegna framkomu annarra í þeirra garð.

„Textinn fjallar um stúlku sem reyndi að „brjóta boxið“, reyndi að komast út úr staðalímynd sem henni var ætlað að falla inn í. Um leið er textinn svo gegnsýrður af staðalímyndum kvenréttindabaráttu 8. áratugarins að ætla mætti að hann hafi ollið upp úr kellingum á mínum aldri en ekki 15 ára stelpum sem ég held að hafi alist upp með í höndunum allt það sem heimurinn hefur yfirleitt að bjóða,“ skrifar hún.

„Til hvers eiginlega vísar „feðraveldið“ í söngtexta hinna 15 ára hagskælinga? Kannski til allra þeirra miðaldra karla sem skipuleggja ekki málfund án þess að leita til konu um framsögu, jafnvel þótt fundurinn fjalli um líf með blöðruhálskirtil. Eða kannski til stelpnanna sem hafa stýrt skólablöðunum og gert með þeim skólasystrum sínum lífið leitt eins og fjallað hefur verið um nýlega.“

Þá segist hún binda vonir við að hæfileikaríku Vesturbæingarnir syngi einhvern daginn um rétt einstaklinga til að vera virtir á eigin forsendum en ekki annarra af sama kyni. „Ég skal þá dansa með.“

 

Hér má sjá atriðið sem um ræðir.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×