Innlent

Skoði fermingartolla presta í þéttbýli eins og hlunnindi á prestssetursjörðum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Tillaga um breyta skiptingu hlunnindatekna var gagnrýnd á Kirkjuþing fyrir lítinn undirbúning.
Tillaga um breyta skiptingu hlunnindatekna var gagnrýnd á Kirkjuþing fyrir lítinn undirbúning. vísir/gva
„Þetta er eitt af eilífðarmálunum í kirkjunni af því er virðist,“ sagði Agnes M. Sigurðardóttir biskup undir lok umræðu á kirkjuþingi í október um tillögu um breytta skiptingu um arð af hlunnindum prestssetursjarða. Þá var ljóst að málið yrði ekki afgreitt á þinginu.

Agnes M. Sigurðardóttir biskup
Tillaga biskups var afrakstur vinnu þriggja manna starfshóps. Hún snerist meðal annars um að arður af hlunnindum sem ekki krefjast sérstaks vinnuframlags sitjandi prests á prestssetursjörð skyldu skiptast milli viðkomandi sóknar og kirkjumálasjóðs. Ákveðið var að fela kirkjuráði að skipa þriggja manna starfshóp til að skoða málið í tengslum við stefnumörkun þjóðkirkjunnar um eignir og eignastýringu.

Í umræðum á kirkjuþingi rifjaði séra Sjöfn Jóhannesdóttir í Djúpavogsprestakalli upp að tíu ár væru síðan að komist hafi verið að niðurstöðu á kirkjuþingi um skipan hlunnindamálanna. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum næmu allar veiðitekjur af prestssetursjörðum nú um 15 milljónum króna og af þeim rynni nú þegar tæpur helmingur í Kirkjumálasjóð.

„En nú er komin fram ný tillaga sem miðar að taka með einu pennastriki sérstaka tegund hlunninda sem sumir að halda að sé sjálfrennandi undan prestssetrunum," sagði séra Sjöfn sem kvað málið illa undirbúið.

„Þessi tillaga sem hér liggur fyrir, hún gengur út á það að afrakstur þessara hlunninda hafi farið beint ofan í vasa prestsins, eins og stundum er svo smekklega komist að orði,“ sagði séra Sjöfn. "Þau sem kynna sér málið komast í raun um að þessir fjármunir eiga að renna til viðhalds og rekstrar á jörðinni.“

Séra Geir Waagevísir/gva
Líklega einhverjir fitnað

Séra Geir Waage í Reykholti sagði að þegar hann tók við í Reykholti fyrir 25 árum hafi kirkjan verið búin að tapa staðnum, meðal annars veiðirétti í Grímsá.

„Það tók mig sextán ár að ná þessu heim aftur og þetta hefur orðið okkur ómetanleg hjálp við að reisa nýju kirkjuna því vitaskuld hef ég aldrei hirt eyri af þessum veiðitekjum Reykholtskirkju, þær hafa runnið í gegn um sjóði sóknarnefndar til kirkjunnar eftir að við náðum þeim aftur,“ sagði séra Geir og lýsti uppbyggingu á staðnum og rekstri hitaveitu sem hann hafi stýrt endurgjaldslaust sem framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins Reykholtsstaðar ehf.

„Það má vel vera og líklega er það rétt að einhvers staðar hafi einhverjir prestar heldur fitnað af ásetu sinni heldur en hitt en ég hygg að það sé fágætt og glaður er ég fyrir þeirra hönd sem hafa getað nýtt sér prestssetur fjölskyldu sinni og sjálfum sér til nokkurs framdráttar því ég hygg að flestir, eða fleiri, hafi nú þá sögu að segja að þetta sé kvöð, það er kvöð að bera ábyrgð á þessu öllu saman,“ sagði séra Geir.

Stefán Magnússon sagði ekki gott að átta sig á umfangi vinnu hvers og eins prests. „Skila ábúendur jarða í eigu kirkjunnar ársreikningi fyrir jarðirnar sjálfar? Þar sem fram koma þær tekjur og þau gjöld sem jörðinni tengjast? Er skilað inn árlega ástandsskýrslu jarðanna og skýrslu um fyrirhugaða viðhalds- og framkvæmdaþörf?“ spurði Stefán.

Á Kirkjuþingi.vísir/gva
Séra Gísli Gunnarsson sagðist taka undir að skoða þyrfti málið betur í heild. Fyrir ári hafi verð lögð fram skýrsla um prestssetursjarðir sem sýndi að prestssetursjörðum hefði fækkað um 63 prósent frá árinu 1957. Þær væru nú 26 talsins.

Eins og fleiri í umræðunum benti séra Gísli á að það gæti mismunað sóknum í sama prestakalli ef hlunnindi prestssetursjarða ættu að renna til einstakra sókna.

„Að setja hagsmunagæsluna undir sóknarnefndirnar tel ég alveg afleita hugmynd. Að hafa tvo aðila; prestinn og sóknarnefndina til þess að fara með ábyrgð og gæta hagsmuna jarðar, það er til þess að skapa ófrið á flestum stöðum, held ég,“ sagði Gísli.

Ólafur Valgeirsson sagði það viðhorf sem væri víðast hvar í þjóðfélaginu, að tekjur af hlunnindum rynnu að einhverju leyti í vasa prestsins, litast af vanþekkingu. „Væri ekki bara alveg ágætt að það væri tekinn saman einhver upplýsingabanki um það og því miðlað til sóknarfólks hvernig þetta er í raun og veru fyrst þetta er allt öðruvísi heldur en sóknarfólkið heldur?“ spurði Ólafur.

Dr. Hjalti Hugason sagði að áður fyrr hafi prestssetur verið grunnurinn undir tekjum prestsins. Á tuttugustu öldinni hafi orðið sú stóra breyting að prestarnir urðu launamenn.

„Og þá er náttúrlega vandséð að einhver hluti prestanna skuli annars vegar vera launamenn á sama grundvelli og embættissystkini þeirra annars staðar en auk þess hafa þessa stofnun, prestssetrið sem að eftir atvikum getur gefið af sér fyrirhafnarmiklar tekjur eða fyrirhafnarlitlar tekjur eftir atvikum,“ sagði Hjalti og undirstrikaði að hlunnindi væru af ýmsu tagi. „Það geta allt í einu komið upp þær aðstæður að það myndast bótaréttur af einhverju tagi, til dæmis vegna vegalagningar eða línulagningar og eiga þær þá að renna til þess sem haft hefur prestssetrið að léni á þeim tíma sem bótarétturinn skapast?“

Dr. Hjalti sagði að kanna þyrfti hvert tekjur af hlunnindum og bótum hefðu runnið síðasta áratug. „Hvernig hefur þeim verið varið og hvernig hátta einstakir ráðsmenn þessara hlunninda rekstrinum á þeim?“ spurði Hjalti sem og bætti við að siðferðislega hlið málsins væri svolítið flókin. „Í umræðunni, bæði innan prestastéttarinnar heyrist mér og úti í samfélaginu og í Kastljósi að þá eru alls konar getgátur í gangi, að þessar tekjur renni að svo og svo miklu leyti til hlunnindaprestanna. Það er þá bara mjög gott að það komi í ljós ef svo er ekki.“



Svana Helen Björnsdóttir
Óeðlilegur ávinningur

Svana Helen Björnsdóttir sem sat í starfshópi biskupsins rak úr greinargerð hópsins að veiðihlunnindi séu algengasta tegund hlunninda á prestssetrum. Þar séu fjárhæðir frá nokkrum tugum þúsunda og til milljóna króna. Þessi hlunnindi hafi sætt mestri gagnrýni. Bent hafi verið á að óeðlilegt sé að tilteknir opinberir embættismenn njóti slíks ávinnings án nægjanlegs samhengis við starf sitt og slík hlunnindi skekki stöðu presta innbyrðis.

„Ábúendur prestsseturajarða hafa talið að önnur tilviljankennd hlunnindi en veiðihlunnindi tilheyri einnig leiguliða afnotum. Þar er um að ræða greiðslur, svo sem vegna landleigu, lóðaleigu eða bótagreiðslur í tengslum við virkjanaframkvæmdir. Greiðslur af þessu tagi geta numið háum fjárhæðum,“ las Svana úr greinargerðinni. „Ráðgjafahópur biskups telur að þessi tegund hlunnindagreiðslna sé barn síns tíma og eigi ekki við lengur. Greiðslurnar byggja ekki á sanngirnissjónarmiðum og eru úr takti við aðra umbun á vegum opinberra aðila og því er lagt til að þær verði afnumdar.“

Steindór Haraldsson sagði það hljóta að vera eðlileg kröfu að skilja í sundur rekstur jarðarinnar annars vegar og rekstur prestsins á sínu persónulega heimili hins vegar.

„Ef að það er ekki alveg á hreinu hvernig peningar renna, af því að það er verið að tala um sjálfrennandi dæmi, þá verður alltaf rifist um það,“ sagði Steindór.

Drífa Hjartardóttir benti á að það að sitja sögufrægan stað útheimti mikla vinnu án þess að fyrir hana væri greitt. Mikil vinnu gæti verið tengd veiðréttindum. Hún nefndi sem dæmi Veiðifélag Eystri-Rangár þar sem hún er formaður. „Þar hafa þeir sem að sitja til dæmis ríkisjarðir eða prestssetur lagt í æði mikla vinnu mjög oft og það er vinna sem er algerlega ólaunuð,“ sagði Drífa sem vildi að greint væri á milli hlunninda af veiði og dúntekju og þess að verið væri leggja háspennulínu í gegn um jörðina.



Prófasturinn Gísli Jónassonvísir/valli
Fjórtán þúsund per nef

„Er ekki hægt að fá yfirlit yfir hvað um þessa peninga verður ef þeir fara ekki allir ofan í vasann hjá klerkinum?“ spurði Ólafur Valgeirsson. „Svo menn þurfi ekki að æsa sig út af því sem ekkert sé - að því er mér skilst.“

Séra Geir í Reykholti tók aftur til máls. „Ef við ætlum með allt upp á gátt þá skulum við skoða allar gáttirnar líka,“ sagði Geir. Hann bar saman tekjur af aukaverkum hjá prestum í strjálbýli og í þéttbýli. Taxti væri gefinn út af ráðherra á tíu ára fresti. Hann tók Skálholtsprestakall sem dæmi.

„Skyldi það vera svo að fjórtán þúsund krónurnar sem hann fær fyrir að ferma barn í þeirr sókn sem lengst liggur frá Skálholti dekki bensínkostnaðinn við að spyrja barnið yfir það tímabili sem spurningar standa?“ spurði hann.

Reykholtspresturinn sagði að í þéttbýli væru fermingarbörnin kannski hundrað eða fleiri í sömu sókn. Presturinn þyrfti ekkert að eltast við þau og fengi fjórtán þúsund krónur fyrir hvert þeirra.

„Og ef á að fara rannsaka aukatekjur almennt af búskap þá væri kannski rétt að kirkjustjórnin liti ofan í pyngjurnar hjá prestunum hér í þéttbýlinu sem eru að taka, eins og ég segi, bara fyrir fermingarbörnin, fjórtán þúsund per nef og búa víða við það að sóknirnar leggja þeim til fræðara sem sóknirnar greiða. Og skyldu þá prestarnir skipta þessum tollum sínum af fermingunum með sóknunum? Ef að svo er þá gætu þeir talist til nokkurrar fyrirmyndar. En nær er mér að halda að þeir hirði tollana, hvort sem þeir fræða börnin sjálfir eða ekki,“ sagði séra Geir.

Séra Gísli Jónasson, prófastur Reykjavíkurprófastsdæmis, sagði orð séra Geirs um aukaverkin vera „smjöklípu“. Þau skiptu auðvitað máli í þessi samhengi öllu en sem prófastur í fjölmennasta prófastsdæmi landsins vissi hann ekki um einn einasta söfnuð sem að launaði fræðara fyrir að uppfræða fermingarbörn fyrir prestana.

„Þannig að séu menn talandi hér um það komi fram fullyrðingar um hluti i sambandi við hlunnindatekjur af jörðum þá eru kannski einhverjar mýtur í gangi líka í þessu samhengi,“ sagði séra Gísli.

Öfugur endi

Að sögn séra Leifs Ragnars Jónssonar var byrjað á öfugum enda á umræðunni sem verið hafi nánast á hverju kirkjuþingi. „Eigum við ekki fyrst að ræða það hvort að prestar eigi yfirhöfuð að sitja á prestssetursjörðum?“ spurði séra Leifur.

Einar Karl Haraldsson sagði gegnsæi skipta öllu máli. „Það er það sem skiptir mestu máli í þessu, að við losnum við þá tortryggni að þetta sé einhvers sérstök tekjulind fyrir prestana sem sitja staðina,“ sagði Einar Karl.

Birgir Rafn Styrmisson sagðist hafa velt málinu fyrir sér lengi. „Ég er þeirrar skoðunar í dag að því meiri hlunnindi því betra fyrir prestssetrið. Og það er engum betur trúandi fyrir þessum hlunnindum heldur en þeim sem situr jörðina. Það er alveg skýrt í mínum huga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×