Innlent

Skráðir fyrir ávísunum án eigin vitundar

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Ólafur segir gagnsæi í lyfjagrunninum minnka hættu á misnotkun en best sé að læknar ávísi ekki ávanabindandi lyfjum án þess að hitta sjúklinginn.
Ólafur segir gagnsæi í lyfjagrunninum minnka hættu á misnotkun en best sé að læknar ávísi ekki ávanabindandi lyfjum án þess að hitta sjúklinginn. vísir/stefán
Borið hefur á því að læknar séu skráðir fyrir vélskömmtun lyfja án þess að þeir viti af því en einnig að einstaklingar fái ávísað sömu lyfjum í stökum ávísunum á sama tíma og þeir fá skammtað.

Um er að ræða lyf úr öllum flokkum en Embætti landlæknis hefur mest verið að gera athugasemdir varðandi ávanabindandi lyf. Stutt er síðan vélskömmtun lyfja fór að berast í nýja lyfjagagnagrunninn.

„Nú geta læknar sjálfir séð skammtanir og nafn þess læknis sem stendur fyrir þeim. Læknar hafa haft samband við Embætti landlæknis til að breyta skömmtunum eða fella skömmtunarseðla niður því enn er það þannig að læknar sjá ekki í hvaða apóteki ávísanir eru leystar út,“ segir Ólafur B. Einarsson hjá Embætti landlæknis.

„Þetta eru fyrst og fremst ávanabindandi lyf sem um ræðir en margir einstaklingar sækja stíft í slík lyf. Við bindum miklar vonir við það að aðgangur lækna að lyfjagagnagrunni komi til með að minnka misnotkun á þessum lyfjum. Þá er búið að sameina sjúkraskrárkerfi milli starfsstöðva lækna þannig að upplýsingaaðgengi lækna er orðið mun betra. Við höfum trú á því að þetta muni hafa jákvæð áhrif en Það gerist hægt.“

Ein afleiðing af auknum upplýsingum hjá læknum er að lyfjagjöf til einstaklinga er hafnað. Þetta birtist meðal annars í því að einstaklingar í fíknivanda reyna að komast yfir þessi lyf með því að villa á sér heimildir og biðja um lyfjaávísun frá lækni eða reyna að leysa út lyf úr apótekum á nafni annarra.

Dæmi eru um að slíkar falsanir hafi viðgengist mánuðum saman þegar einstaklingarnir sjálfir eða starfsfólk apóteka hefur komið upp um þær fyrir tilviljun. Það er möguleiki að slíkar falsanir viðgangist og ekki hafi komist upp um þær.

„Hluti vandans er sá að það getur verið erfitt að sannreyna hvort það sé réttur aðili sem hringir og biður um lyfjaávísun t.d. á heilsugæslu,“ segir Ólafur.

Stöðugt fleiri læknar nota lyfjagagnagrunn landlæknis, í september 2014 var fjöldinn 412 en í september 2015 867 læknar. Aðgengi þeirra að lyfjagagnagrunninum hefur aukið öryggi ávísana að sögn Ólafs.

Hann segir þó bestu leiðina til að koma í veg fyrir misnotkun að skrifa ekki út ávanabindandi lyf án þess að hitta sjúklinginn.

„Best er að læknar hitti einstaklingana í eigin persónu og ræði við þá um lyfjanotkunina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×