Innlent

Uppnám í Lágafellskirkju: „Engin ástæða til að flæma mig í burtu“

Birgir Olgeirsson skrifar
Lágafellskirkja í skammdeginu.
Lágafellskirkja í skammdeginu. Vísir/GVA
„Ég mun taka til starfa um leið og ég fæ grænt ljós,“ segir Skírnir Garðarsson, prestur við Lágafellssókn, en biskupsstofa hefur ákveðið að senda hann og Ragnheiði Jónsdóttur, sóknarprest við Lágafellssókn í leyfi til áramóta vegna ágreinings þeirra á milli.

Fyrst var greint frá málinu á vef Mosfellings, bæjarblaðsins í Mosfellsbæ, en þar haft eftir Þorvaldi Víðissyni biskupsritara að Skírnir og Ragnheiður verði í leyfi til áramóta á meðan Biskupsstofa vinnur að farsælli lausn í málinu.

Skírnir segir málið eiga rætur sínar að rekja til þess þegar hann var kærður fyrir brot á persónuverndarlögum ásamt starfsmanni Mosfellsbæjar sem Skírnir segir hafa lokið með því að hann var sýknaður af kærunni. Skírnir segist hafa þurft að standa sjálfur straum af kostnaði vegna málsins og var ósáttur við að Lágafellssókn hafi ekki tekið þátt í  honum. Þá segir hann andmælarétt sinn ekki hafa verið virtan og vill meina að framkvæmdastjóri Lágafellskirkju, Hreiðar Örn Zoëga Stefánsson, hafi brotið þannig gegn lögum um opinbera stjórnsýslu.

Skírnir segist einnig ekki hafa fengið sanngjörn meðmæli frá Lágafellssókn þegar hann sótti um starf prests nýverið á Akranesi og segist hann hafa sent kvörtun til Vinnueftirlitsins vegna eineltis sem hann telur sig hafa orðið fyrir af hálfu Hreiðars Arnar og Ragnheiðar Jónsdóttur. Segir hann Vinnueftirlitið með þá kvörtun til skoðunar.

Hann vill sjálfur áfram vera prestur í Lágafellssókn. „Ég á þá ósk heitasta að starfa sem prestur og þjóna því fólki sem ég er kosinn og ráðinn til að þjóna og vil ekki vera að svíkjast um. Þetta er köllun mín að þjóna og mér líður ekki vel að vera settur til hliðar. Ég samþykkti það hins vegar tímabundið.“

Hann segist hafa mætt kaldri framkomu forsvarsmanna sóknarinnar og segist eiga erfitt með að festa fingur á hvers vegna reynt sé að flæma hann í burtu. „Það er engin ástæða til að flæma mig í burtu. Ég er alls ekkert slæmur prestur, ég get sagt það hér og nú. Ég er frekar vinsæll prestur, það er oft verið að leita til mín og ég er með fullt málum. Það eru kannski einhverjir óánægðir með mig að ég er kannski aðeins of hreinskilinn en ég læt bara ekkert vaða yfir mig,“ segir Skírnir sem segist vera af gamla skólanum þegar kemur að biblíunni og skoðanir hans því ekki endilega vinsælar á meðal sumra.

Rafn Jónsson, formaður sóknarnefndar Lágafellssóknar, neitaði að tjá sig um málið og vísaði á Biskupsstofu. Ekki hefur náðst í Þorvald Víðisson biskupsritara vegna málsins, Ragnheiði Jónsdóttur sóknarprest Lágafellssóknar eða Heiðar Örn Zoëga Stefánsson framkvæmdastjóra Lágafellskirkju.

Á vef Mosfellings kemur fram að séra Birgir Ásgeirsson og séra Kristín Pálsdóttir munu leysa Ragnheiði og Skírni af til áramóta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×