Innlent

„Ég fer ekkert sjálfviljug í einhver skuggasund“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fólksfjöldi og birtuskilyrði hafa meðal annars áhrif á öryggistilfinningu kvenna í miðborg Reykjavíkur.
Fólksfjöldi og birtuskilyrði hafa meðal annars áhrif á öryggistilfinningu kvenna í miðborg Reykjavíkur. vísir/hari
Myrkrið hefur slæm áhrif á öryggistilfinningu kvenna í miðborg Reykjavíkur og þá efnisgerist ótti þeirra í karlmönnum. Óttinn snýr öðru fremur að því sem getur hugsanlega gerst í framtíðinni.

Þetta eru niðurstöður rannsóknar Bjarkar Hólm Þorsteinsdóttur, mastersnema í þjóðfræði, en hún kynnti lokaverkefni sitt „Ég vil helst ekki labba ein heim“ – upplifun kvenna af öryggi í miðborg Reykjavíkur““ á Þjóðarspeglinum í Háskóla Íslands í dag.

Björk tók eigindleg viðtöl við 14 konur sem búa í póstnúmeri 101 í Reykjavík. Þá sendi hún jafnframt út rafræna spurningaskrá sem 151 kona svaraði og studdu þau svör við niðurstöðurnar sem komu út úr eigindlegu viðtölunum.

Fara um upplýst svæði og labba um með lykil í höndinni

„Allar heimildakonurnar mínar byrjuðu á því að taka fram að Reykjavík væri ekki hættuleg borg og það væri engin ástæða til að hræðast. Þær töluðu um miðborgina sem stað sem þeim leið vel á og sögðu að fólk sem talaði illa um miðbæinn væri almennt fólk sem byggi í úthverfum og á landsbyggðinni,“ sagði Björk í erindi sínu í dag.

Hins vegar þegar líða tók á viðtölin fóru konurnar að nefna dæmi um brögð sem þær beittu fyrir sig ef þær væru einar á ferð, eins og til dæmis að ganga með lykilinn í höndinni, vera á ferð á upplýstum svæðum og labba hraðar.

Björk sagði að svo virtist vera af viðtölum hennar við konurnar að öryggisaðferðir þeirra væru eðlilegar og partur af hversdeginum enda væri um síendurteknar athafnir að ræða.

„Ég fer ekkert sjálfviljug inn í einhver skuggasund,“ sagði til dæmis ein konan.

Ein manneskja meiri ógn en tvær manneskjur

Önnur sagði að henni fyndist hún tiltölulega örugg í miðborginni „en það er líka bara af því ég vel mér að fara öruggar leiðir, ég labba alltaf frekar götur sem eru vel upplýstar eða þar sem er umferð, frekar en að labba litla stíga.“

Fólksfjöldi hefur því líka áhrif á öryggistilfinningu kvennanna sem sögðust leitast við að fara um fjölfarin rými. Þá kom jafnframt fram að ein manneskja í sama rými væri meiri ógn en tvær, þrjár eða tíu manneskjur.

„Karlmenn höfðu svo neikvæðari áhrif á öryggistilfinningu kvennanna og þær hræðast þá frekar sem ofbeldismenn. [...] Karlmenn falla í svokallaðan „stranger danger“ flokk án undantekninga og þar spilar inn í ótti við kynferðislegt ofbeldi en líka við rán og líkamsmeiðingar,“ sagði Björk.

Vökult auga eftirlitsmyndavélar veitir ekki meiri öryggiskennd

Eftirlitsmyndavélar eru víða í miðborg Reykjavíkur og spurði Björk konurnar út í áhrif þeirra á öryggistilfinningu þeirra þar sem vélarnar eiga meðal annars að stuðla að auknu öryggi fyrir konur. Björk komst hins vegar að því að konurnar upplifa ekki aukna öryggistilfinningu frá myndavélum.

„Þær vissu ekki hvar myndavélarnar væru og hugsuðu því ekkert út í þær. Auk þess sögðust konurnar ekki trúa á getu þeirra til aðgerða og nefndu að eftirlitsmyndavélin getur ekki tekið burt tilfinningaskaðann ef eitthvað myndi gerast þó að hún myndi kannski auðvelda sönnunarbyrði eftir á, ef hún væri þá yfirhöfuð í gangi. Vökult auga myndavélarinnar veitir því ekki meiri öryggiskennd,“ sagði Björk.

Í lok erindis síns sagði Björk að ekki væri hægt að skera úr um hvort að Reykjavík sé örugg borg eða ekki. Hins vegar veittu þær innsýn inn það hvernig það er að vera kona í almenningsrými miðborgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×