Innlent

Framboð heilbrigðisstarfsmanna ekki í takt við spár

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Hjúkrunarfræðingum hefur fjölgað meira en spár gerðu ráð fyrir.
Hjúkrunarfræðingum hefur fjölgað meira en spár gerðu ráð fyrir. vísir/vilhelm
Framboð á starfsfólki innan helstu heilbrigðisstétta var meira en spár gerðu ráð fyrir í tilfelli hjúkrunarfræðinga og minna í tilfelli lækna.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra til Steingríms J. Sigfússonar þingmanns vinstri grænna. Hjúkrunarfræðingum hefur fjölgað of hratt en læknum of hægt.

Í svarinu kemur fram að framreiknuð spá um mannaflaþörf fjögurra helstu heilbrigðisstétta landsins til ársins 2030 séu byggðar á skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá árinu 2006 og spá velferðarráðuneytisins á mannaflaþörf frá árunum 2011 til 2012.

Stéttirnar sem spárnar ná til eru stéttir lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og sjúkraþjálfara. Þær gerðu ráð fyrir stöðugri fjölgun innan stéttanna til áranna 2015 og 2017 þar sem fækkun er spáð vegna hækkandi starfsaldurs starfsfólks innan geirans.

Raunfjölgun heilbrigðisstarfsmanna hefur þó ekki haldið í við spárnar, til að mynda var fjöldi hjúkrunarfræðinga árið 2014 meiri en spáð var eða um 250 hjúkrunarfræðingum meira gert var ráð fyrir. Þá hefur læknum fjölgað hægar en spáð var, til dæmis hefur útgefnum starfsleyfum lækna fækkað úr 94 árið 2009 í 45 árið 2014.

Þá er gert ráð fyrir að hækkandi aldur innan heilbrigðisstétta muni geta komið til með að hafa áhrif á mönnun en í stéttum lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða er meðalaldur starfsfólks á bilinu 47 til 50 ára nema hjá sjúkraþjálfurum, þar er meðalaldurinn 42 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×