Innlent

Úrræðaleysi eftir útskriftina

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Erla segir viðhorfsbreytingu nauðsynlega í íslensku geðheilbrigðiskerfi.  Hún hefur áralanga reynslu af kerfinu en litla systir hennar hefur glímt við alvarlegt þunglyndi um árabil.
Erla segir viðhorfsbreytingu nauðsynlega í íslensku geðheilbrigðiskerfi. Hún hefur áralanga reynslu af kerfinu en litla systir hennar hefur glímt við alvarlegt þunglyndi um árabil. vísir/vilhelm
Sífellt fleiri stíga fram undir merkjum #égerekkitabú á samfélagsmiðlum og lýsa glímu við geðraskanir og geðsjúkdóma. Á bak við hverja veika manneskju eru að jafnaði þrír til fimm nánir aðstandendur. Geðhjálp efndi í gær til málþings undir yfirskriftinni Öðruvísi líf þar sem aðstandendur lýstu sinni sýn.

Erla Kristinsdóttir var á meðal þeirra sem stigu fram. Hún sagði frá upplifun sinni af því að eiga systur með þunglyndi. Hún var lögð í einelti og þá fór að bera á þunglyndi og sjálfskaðandi hegðun.

„Hún átti ekki samleið með bekkjarfélögum sínum sem sumir lögðu hana í einelti. Það komu engir vinir heim að leika við litlu systur og í þau örfáu skipti sem það gerðist þá var tilgangurinn annar en að sýna vináttu og kærleika,“ segir Erla.

Hún segir vanlíðan systur sinnar hafa verið slíka að hún vildi ekki lifa lengur og lýsir viðmótinu þegar leita þurfti læknis. „Það hefði verið svo miklu einfaldara hefði hún fengið krabbamein eða einhvern samfélagslega samþykktan sjúkdóm. Þá hefði hún fengið miklu meiri stuðning og við hennar nánustu aðstandendur líka.“

Systir Erlu var viðloðandi geðdeild í rúmt ár. Erla segir það hafa verið ákveðinn létti að vita af henni á öruggum stað. Þegar hún var loks útskrifuð tók úrræðaleysið við.

„Litla systir útskrifaðist af geðdeild og var þá vísað frá sínum geðlækni. Að sögn mátti hann ekki sinna sjúklingum utan spítalans. Sálfræðiþjónustan fylgdi ­einnig spítalanum og var ekki lengur í boði eftir útskrift. Litla systir þurfti að flytja aftur til mömmu enda bæði orðin atvinnulaus og húsnæðislaus eftir ársdvöl á geðdeild.“ Þarna hafi baráttan við kerfið harðnað. Loks samþykkti heimilislæknir fjölskyldunnar að hitta systur Erlu á meðan leitað væri að sálfræðingi sem hefði umsjón með meðferðinni. Síðan eru liðin átta ár og systir Erlu er enn án geðlyfja og hefur ekki stigið fæti inn á geðdeild aftur.

Eftir margra ára reynslu af íslensku geðheilbrigðiskerfi segir Erla þörf á viðhorfsbreytingu. „Geðlæknar verða að hugsa út fyrir lyfjaglasið og félagsþjónustan á að mæta geðfötluðum sem manneskjum, ekki sem aumingjum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×