Innlent

Hafnarfjörður opnar hreyfivöll við Suðurbæjarlaug

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Þátttakendur í hlaupahópi FH prófa tækin.
Þátttakendur í hlaupahópi FH prófa tækin. mynd/hafnarfjarðarbær
Hafnarfjarðarbær hefur opnað hreyfivöll við Suðurbæjarlaug. Hreyfivöllurinn samanstendur af 7 æfingatækjum sem nýtast almenningi og íþróttafólki jafnt til styrktar-, þol- og liðleikaþjálfunar.

Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri, og bæjarfulltrúar fengu kennslu á tækin og síðan fengu hlaupahópar bæjarins að spreyta sig en óskað var eftir áliti almenningsíþróttahópa í bænum á staðsetningu og hvaða tæki myndu henta.

Ákveðið var að finna fyrsta hreyfivellinum stað við Suðurbæjarlaug og valin vönduð tæki frá Norwell fitness sem hafa verið sett upp víða um heim. Tækin bjóða uppá fjölbreytta möguleika til styrkingar og liðleikaþjálfunar, s.s. skíðagöngu, upphífingar og teygjur. Tækin henta fólki á öllum aldri og við völlinn eru leiðbeiningar um notkun svo auðvelt er að kynna sér hvernig tækin virka.

Hafnarfjarðarbær og Embætti landlæknis standa fyrir átakinu Heilsueflandi samfélag til eflingar lýðheilsu í bæjarfélaginu. Hafnarfjörður er þriðja bæjarfélagið sem skrifaði undir samning við Embætti landlæknis um Heilsueflandi samfélag og er því í forystu heilsueflingar á Íslandi í dag en verkefnið snýst fyrst og fremst um að auka aðgengi að heilsueflandi valkostum fyrir íbúa bæjarins og hvetja til heilsusamlegra lífshátta eftir margvíslegum leiðum, s.s. uppsetningu hreyfivalla.

Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri, prófaði tækin

Posted by Hafnarfjarðarbær on Thursday, 15 October 2015



Fleiri fréttir

Sjá meira


×