Innlent

Gera ráð fyrir fleiri íbúðum í skipulagi

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Fjölga á íbúðum í Úlfarsárdal þótt fyrri markmið um uppbyggingu náist ekki að sögn meirihlutans í borgarráði
Fjölga á íbúðum í Úlfarsárdal þótt fyrri markmið um uppbyggingu náist ekki að sögn meirihlutans í borgarráði vísir/pjetur
Endurskoða á deiliskipulag Úlfarsárdals til að samræma það forsendum aðalskipulags Reykjavíkur um fjölgun íbúða og uppbyggingu og stækkun Úlfarsárdalshverfis. Borgarráð samþykkti tillögu þessa efnis á fimmtudag.

Tillagan var breytingartillaga meirihlutans við tillögu borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina, sem sögðu jákvætt að meirihlutinn væri í raun að samþykkja þeirra tillögu. Með því væri verið að sýna því skilning að í Reykjavík vantaði litlar, ódýrar íbúðir fyrir ákveðna hópa, til dæmis ungt fólk sem ætti lítið eða ekkert eigið fé, kæmist ekki í gegnum greiðslumat og leigði langt umfram greiðslugetu. Einnig fyrir eldra fólk sem hefði margt misst húsnæði sitt.

„Þetta eru hópar sem eru algerlega hornreka í húsnæðisstefnu borgarinnar og biðlund þeirra eftir ódýru húsnæði í miðborginni, sem fyllist óðum af ferðamannaíbúðum og hótel­rýmum, er komin að þolmörkum,“ bókuðu fulltrúar Framsóknar og flugvallarvina.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins studdu breytinguna og sögðust ítrekað hafa bent á þörfina fyrir stærra Úlfarsárdalshverfi.

„Núverandi íbúar hverfisins gerðu ráð fyrir stærra hverfi þegar þeir fjárfestu í húsnæði. Stærra hverfi styður við öflugra íþróttafélag, meiri möguleika á allri þjónustu og það kemur til móts við mikla þörf fyrir ódýrara íbúðarhúsnæði í borginni. Stækkun hverfisins er því mikilvægur þáttur í því að gera ungu fólki auðveldara fyrir að koma sér þaki yfir höfuðið,“ bókuðu sjálfstæðismenn sem fyrr á borgarráðsfundinum höfðu gert aðstæður Knattspyrnufélagsins Fram að umræðuefni.

„Sjónarmið Fram vegna flutnings félagsins og uppbyggingar á nýju félagssvæði þess eru réttmæt,“ bókuðu sjálfstæðismenn sem gagnrýndu meirihlutann fyrir að bregðast ekki nógu hratt við bréfi Fram um uppbyggingu íþróttaaðstöðu í Grafarholti-Úlfarsárdal.

„Borgarstjórn ber að standa við þau fyrirheit um íbúafjölda, sem gefin voru þegar framkvæmdir hófust við íþróttasvæði Fram í Grafarholti-Úlfarsárdal árið 2008. Félagið hefur ásamt íbúum þessara hverfa sýnt borginni ríkulegan samstarfsvilja og biðlund vegna seinkunar, sem varð á uppbyggingu vegna efnahagsáfalla í þjóðfélaginu á sínum tíma,“ bókuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks.

Fulltrúar meirihlutaflokkanna svöruðu því til að ljóst væri að upphaflegar áætlanir um uppbyggingu í Úlfarsárdal myndu ekki koma til framkvæmda fyrir 2030 þar sem skipulagsáætlanir byggðu á markmiðum um sjálfbæra þróun og hagkvæma uppbyggingu borgarinnar.

„Í öllum viðræðum við forsvarsmenn íþróttafélagsins Fram hefur þessu verið haldið til haga. Ljóst er að ekki er vilji fyrir því að breyta forsendum aðalskipulags til þess að koma til móts við óskir forsvarsmanna Fram um íbúafjölda í Úlfarsárdal, enda stendur stærð hverfisins miðað við núverandi áætlanir fyllilega undir því að geta haldið uppi öflugu íþrótta- og tómstundastarfi fyrir börn og ungmenni,“ bókuðu fulltrúar Samfylkingar, Besta flokksins, VG og Pírata.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×