Innlent

Einn helsti sérfræðingur Breta á málþingi um áfallastjórnun

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða og framkvæmdastjóri NORDRESS, stýrir opnu málþingi um áfallastjórnun í dag.
Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða og framkvæmdastjóri NORDRESS, stýrir opnu málþingi um áfallastjórnun í dag. vísir/gva
Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, breska sendiráðið og NORDRESS standa fyrir opnu málþingi um vísindi áfallastjórnunar í Norræna húsinu klukkan 12 í dag.

Aðalfyrirlesari málþingsins er breski vísindamaðurinn Robin Grimes og þá mun jarðeðlisfræðiprófessorinn Magnús Tumi Guðmundsson veita andsvar. Fundarstjóri verður Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri NORDRESS.

„Það er mikill heiður fyrir okkur Íslendinga og fyrir háskólann að fá erlendan gest eins og Robin Grimes prófessor. Hann er aðalráðgjafi breska utanríkisráðuneytisins í vísinda- og tæknimálum og sennilega einn þekktasti sérfræðingur Breta á sviði kjarnorkumála,“ segir Guðrún um aðalfyrirlesarann. Guðrún segir Grimes búa yfir áratuga reynslu sem eðlisfræðiprófessor við Imperial College í Lundúnum og segir hann meðal annars hafa gegnt stöðu ráðgjafa í kjölfar kjarnorkuslyssins í Fukushima í Japan fyrir fjórum árum.

„Þeir Magnús Tumi Guðmundsson, sem allir Íslendingar þekkja sem einn okkar helsta sérfræðing á sviði eldgosa, munu fjalla um áhrif hamfara á samfélög,“ segir Guðrún. Einnig verður opið fyrir spurningar úr sal og samtöl við fundarmenn.

Grimes mun fjalla um mikilvægi vísindarannsókna fyrir viðbúnað og viðbrögð við hamförum, hvort sem er af völdum manna eða náttúrunnar, í erindi sínu. Þá mun Magnús Tumi bregðast við erindi Robin Grimes og lýsa í sínu innleggi lærdómum sem draga má af reynslu Íslendinga af viðbúnaði og viðbrögðum við eldgosum hér á landi á undanförnum árum.

Eins og áður sagði er Guðrún framkvæmdastjóri NORDRESS, sem stendur fyrir málþinginu í samstarfi við Háskóla Íslands og breska sendiráðið. „NORDRESS er nýtt norrænt öndvegissetur um öryggi samfélaga og hvernig hægt er að bæta hæfni þeirra til að standa af sér hamfarir. Því er stýrt frá Stofnun Sæmundar fróða,“ segir Guðrún um NORDRESS. Að NORDRESS standa fimmtán ­norrænar stofnanir og segir Guðrún mikinn heiður að fá að vera við stjórnvölinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×