Innlent

Kærkomið að fá eldri borgara til að móta eldri borgara stefnu innan Pírata

Birgir Olgeirsson skrifar
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata vísir/vilhelm
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir að það yrði mjög kærkomið að fá eldri borgara til að móta almennilega eldri borgara stefnu hjá Pírötum. Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Félags eldri borgara, sagði í Morgunvakt Ríkisútvarpsins í morgun að félagið útilokaði ekki að láta að sér kveða í næstu þingkosningum og að jafnvel komi til greina að mynda stjórnmálaafl með Pírötum.

Hún sagði margt vitlausara en að eldri borgara færu í framboð með Pírötum. Flokkurinn sé með dálítið ómótaða stefnu og þyrfti mögulega á eldri borgurum að halda sem gæti bætt breiddina í flokknum. Vísir heyrði í Helga Hrafni vegna þessara ummæla Þórunnar og tók hann strax fram að allar spurningar um samstarf séu teknar á vettvangi Pírataflokksins og sé ekki eitthvað sem þingmenn ákveði einir og sér.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir
„Ef fólk er hrifið af okkar stefnu þá þætti okkur mikið vænna um það sem flokkur að eldri borgarar hjálpi okkur að mynda góða stefnu innan okkar raða. Það er það sem myndi henta okkur best allavega,“ segir Helgi Hrafn.

Hann segist ekki sjá hvaða vandamál það ætti að leysa ef eldri borgara stofnuðu eigin flokk sem myndi vinna með Pírötum.

„Miklu frekar að mynda bara almennilega eldri borgara stefnu hjá Pírötum. Eitthvað sem er ekki bara í boði heldur eitthvað sem okkur vantar. Það yrði bara mjög kærkomið að fá eldri borgara til að móta almennilega stefnu þar. Við erum flokkur sem snýst ekki bara um að vernda borgaraleg réttindi heldur líka að efla þau. Maður þarf ekki að vita mjög mikið um málefni eldra fólks til að vita að það er mjög margt að þegar kemur að réttindum eldri borgara. Og sjálfsagt hjá okkur að móta stefnu með þeim, þannig lít ég á það,“ segir Helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×