Enski boltinn

Fullkomin fimma hjá Agüero á aðeins 20 mínútum | Sjáðu mörkin

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Sergio Agüero, argentínski framherji Manchester City, gekk einfaldlega frá Newcastle í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni sem stendur yfir þessa stundina. Eftir að Newcastle komst óvænt yfir hlóð Agüero einfaldlega í fimm mörk.

Agüero hafði aðeins skorað eitt mark í ensku úrvalsdeildinni í vetur fram að leik dagsins en hann skoraði sigurmark Manchester City gegn Borussia Mönchengladbach á miðvikudaginn.

Agüero jafnaði metin skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks með skalla af stuttu færi en hann kom Manchester City yfir í byrjun seinni hálfleiks með skoti sem fór af varnarmanni og í netið.

Aðeins einni mínútu síðar tókst honum að fullkomna þrennuna eftir stungusendingu inn fyrir vörn gestanna en hann lyfti boltanum yfir Tim Krul í marki Newcastle.

Fjórða mark Aguero var einkar glæsilegt en hann kom inn á hægri fótinn og skrúfaði boltann í fjærhornið. Bætti hann við sjötta marki Manchester City og fimmta marki sínu í leiknum af stuttu færi eftir góða sendingu inn á vítateiginn.

Náði hann fullkominni þrennu, þ.e. einu marki með skalla, einu með vinstri fæti og einu með hægri en stuttu síðar skipti Manuel Pellegrini honum af velli og risu áhorfendur á vellinum á fætur honum til heiðurs er hann gekk af velli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×