Innlent

Takmörkun á orkuafhendingu frestað

Svavar Hávarðsson skrifar
Í góðu vatnsári fyllist Hálslón síðla sumars og affall lónins myndar þá hinn tignarlega foss Hverfanda.
Í góðu vatnsári fyllist Hálslón síðla sumars og affall lónins myndar þá hinn tignarlega foss Hverfanda. Mynd/Landsvirkjun
Forsendur í vatnsbúskap Landsvirkjunar eru gjörbreyttar í kjölfar hlýinda og rigninga á undanförnum tveimur vikum – sérstaklega á Austurlandi. Takmörkun á orku­afhendingu hefur verið frestað um einn mánuð. Þótt enn ríki óvissa um fyllingu miðlunarlóna hefur staðan snarbatnað.

Landsvirkjun sendi tilkynningu til viðskiptavina sinna 1. september síðastliðinn og um að vart yrði komist hjá skerðingu á orkuafhendingu frá næstu mánaðamótum að telja. Fylling í uppistöðulónum á þeim tímapunkti var óvenjulega lítil. En í september hefur heildarfylling miðlana fyrirtækisins batnað verulega og stendur núna í rúmlega 85% – 5% meira en björtustu vonir stóðu til t.d. í Hálslóni. Fyllingin var aðeins 69% í lok ágúst. Hefur hækkað í Hálslóni um 12 metra í þessum mánuði og fyllingin farið úr 59% í 84%. Fylling Þórisvatns og Hágöngulóns hefur farið úr 83% í 89% og á sama tímabili úr 67% í 74% í Blöndulóni.

Hörður Arnarson
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði í viðtali við Fréttablaðið þegar vika var liðin af september að eitthvað sérstakt þyrfti til að komast hjá skerðingum frá 1. október. Miðað við meðalhorfur um 80% fyllingu lóna 1. október og meðalrennsli í vetur og fram á næsta vor, mátti þá reikna með að orkusala Landsvirkjunar gæti dregist saman um 3,5 prósent í vetur. Hún gæti orðið minni eða meiri en því ræður vetur konungur einn, sagði Hörður þá, eins og komið hefur í ljós.

Það er reyndar gríðarlegur munur á orkuvinnslunni tengdur þessum duttlungum náttúrunnar en hægt er að vinna allt að því 40 prósentum meira af orku í hárennslisári en lágrennslisári. Rétt er að taka fram að þessar sveiflur hafa lítil sem engin áhrif á aðra en stóriðjuna í landinu. Flestir á heildsölumarkaði raforku eru að kaupa forgangsorku sem er ekki skerðanleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×