Innlent

Vill banna Útvarpi Sögu að nota kennistefin

Jakob Bjarnar skrifar
Arnþrúður Karlsdóttir lætur sér hvergi bregða þó umdeild sé; segist lengi hafa mátt sæta eineltistilburðum.
Arnþrúður Karlsdóttir lætur sér hvergi bregða þó umdeild sé; segist lengi hafa mátt sæta eineltistilburðum. ekg
Birgir Örn Tryggvason hefur gefið út að sem höfundur kennistefja sem notuð eru á Útvarpi Sögu hafi hann sett sig í samband við STEF og farið fram á að bann verði sett á alla notkun þeirra kennistefja frá og með strax. „Þetta er mitt framlag gegn þeirri ofboðsvitleysu og fólksmismunun, mannhatri og rasisma sem á sér stað í því sauðahúsi. Ég vil ekki með neinu móti vera þátttakandi í né eiga nokkurt kenni við þetta lágkúruútvarp og þeirra stjórnendur.“

Birgir Örn samdi stefin fyrir Útvarp Sögu, og vill nú helst að hætt verði að nota þau.
ÚúúÚúúútvarp Sahaaaga sungið af Hollendingum

Þetta má heita afgerandi yfirlýsing, sem Birgir Örn gefur út. En, Arnþrúður Karlsdóttir eigandi og útvarpsstjóri á Útvarpi Sögu, gefur ekki mikið fyrir þetta. „Ég hef ekkert heyrt í honum. Ég frétti af þessu í morgun, frá þeim á Ríkisútvarpinu sem höfðu lesið þetta á Facebook. Ég spurði hvort þau væru búin að ganga úr skugga um að hann sé raunverulegur rétthafi eða er hann löngu búinn að selja þann rétt? Og það er nú málið. Hann er fyrir löngu búinn að afsala sér öllum réttindum eða fyrir 13 árum þegar hann seldi þetta til Norðurljósa. Þetta er framleitt í Hollandi: ÚúúúÚútvarp Sahaaga...,“ raular Arnþrúður fyrir blaðamann Vísis, missir ekki úr bít og heldur áfram nánast án þess að draga andann:

„... framleitt í Hollandi og sungið af Hollendingum. Á sínum tíma lét Norðurljós framleiða þetta, svakalega dýrt, og við keyptum þetta og öll réttindi af þeim í góðri trú. Ef það er einhver höfundaréttur hefur hann bara fengið greitt fyrir það hjá STEF og hefur það þá haft sinn eðlilega gang. Við keyptum öll réttindi og borguðum fyrir það. Þetta var svakalega dýr framleiðsla á sínum tíma,“ segir Arnþrúður.

Vissi ekki um spurninguna fyrirfram

Heldur gustar um Útvarp Sögu þessi dægrin. Ljótu hálfvitarnir og Bubbi Morthens hafa gefið út þá yfirlýsingu að þeir vilji banna Arnþrúði Karlsdóttur að leika lög sín á Útvarpi Sögu. Útvarpsstöðin hefur lengi verið umdeild, og sökuðu um að vera farvegur fyrir rasískt raus og að umsjónarmenn hafi beinlínis ýtt undir slíkan málflutning. Steininn tók svo úr, hjá mörgum, þegar stöðin spurði á netsíðu sinni, í einni skoðanakönnun sinni: Treystir þú múslimum? Arnþrúður er furðu róleg þegar hún ræddi við blaðamann Vísis, þó nú gefi hressilega á bátinn.

Þessir tónlistarmenn vilja alls ekki að tónlist þeirra heyrist á Útvarpi Sögu. Arnþrúður lætur sér það í léttu rúmi liggja.
Arnþrúður segist ekkert hafa vitað hvaða spurning yrði sett upp í könnuninni. „Spurningar hér ganga sjálfkrafa fyrir sig. Við erum fjölmiðill sem gerum allar hundakúnstir.“

Ekkert heyrt í STEF

Varðandi tónlistarmennina og kröfu þeirra um að tónlist þeirra sé ekki spiluð á Sögu, þá segir Arnþrúður að Ljótu hálfvitarnir hefi byrjað og Bubbi svo elt þá með það. „Við höfum ekki heyrt frá einum né neinum, ekkert frá STEF, við kaupum allt löglega í gegnum þá. Þeir eru okkar eftirlitsaðilar, og við treystum því sem þeir segja og förum eftir því. Við erum ekki bundin af einu né neinu öðru. STEF sér um þetta. Og við höfum ekkert heyrt frá STEF þannig að við getum spilað þá eins og við viljum.“

Reyndar virðist Arnþrúður ekki líta á það sem neinn sérstakan skaða þó henni væri meinað að spila þessa tónlist. „Þeir eru ekkert á neinum spilalista og þetta er fyrst og fremst talmálsstöð, tónlistin er aukaatriði. Nú, Bubbi er á spilalistum á Bylgjunni og það er svona þegjandi samkomulag um að menn séu ekki að spila það sem aðrir eru að spila; heiðarlegt samkomulag og ekkert nema gott eitt um það að segja. Og hefur gengið afskaplega vel. Þó skarist eitthvað, en í megindráttum er það þannig.“

Eineltistilburðir og skoðanakúgun

En, hvað segir Arnþrúður um þetta almennt, mega hún og Útvarp Saga sæta ofsóknum, er það svo?

„Ég er ekki fórnarlamb, þannig lítur líf mitt ekki út. Ég hins vegar fer ekkert varhluta af því að þetta eru eineltistilburðir og þetta er partur af skoðanakúgun; þetta er tilraun til þess. Hér á Íslandi virðist fólk þurfa að vera í boxinu, eins og Bubbi segir. Og ef þú ferð út fyrir boxið getur þú verið í vondum málum. Þá fer af stað einhver atburðarás og allir eiga að vera snýttir í það mótið. En, Útvarp Saga er allt öðruvísi útvarpsstöð, við höfum aðrar fyrirmyndir, þannig að við erum ekkert að móta okkur samkvæmt neinni slíkri forskrift og alls ekki eins og bloggheimar segja. Facebook ræður ekki för. En þetta er voðalega mikið. Ef þú hlýðir ekki einhverri elítu, hvar sem hún nú felur sig, ef þú ferð ekki eftir þeirri línu skalt þú bara sæta árásum.“

Arnþrúður segir að það sem sé okkur dýrmætast sé skoðana- og tjáningarfrelsi. Og það nái jafnt yfir alla. „Þar af leiðandi, það er grunnurinn undir trúfrelsi, væri ekki til ef við hefðum ekki skoðana- og tjáningarfrelsi.“

Útvarp Saga ekki til samkvæmt Gallup

En, varðandi það þegar skorað er á auglýsendur að sniðganga ykkur; bocott? Það hlýtur að mega heita högg?

„Jájá, en það er þá ekkert nýtt. Við höfum lengi orðið fyrir því. Okkur er haldið fyrir utan Gallup af þessum ástæðum. Hvernig má það vera allt þetta fár í kringum eina litla skoðanakönnum á lítilli útvarpsstöð þegar við erum ekki til samkvæmt Gallup? Ég leyfi mér að segja að ég treysti fólki og auglýsendum, að þeir láti ekki hafa slík áhrif á sig. Þeir hljóta að þurfa að skoða það betur að þeir sem vinna fyrir þá – þeir ráðstafa auglýsingafjármunum séu ekki í persónulegu hnútukasti jafnframt.“

Hvað meinarðu með þeim orðum?

„Það er allt til í þessu. Sérstaklega ef þetta eru markaðsmenn sem eiga hlut að máli, sem vinna sem almannatenglar, þeir vita alveg hvernig þeir eiga að fara að því að skemma mannorð fólks og fá bara borgað fyrir. Við förum ekkert varhluta af því. Ég hef verið svo lengi í þessum sporum, það er búið að taka suma fjölmiðla tíu ár að fást til að kalla mig útvarpsstjóra. Ég hef verið lengi í einelti og sýnt sig í því að ég hef engan veginn fengið að njóta sannmælis.“

Auglýsingakaup aukast á Útvarpi Sögu

Hvað sem Gallup líður þá segist Arnþrúður merkja það að hlustun á Útvarp Sögu sé að aukast verulega. „Og það er að gera einhverja brjálaða.“

En, varðandi auglýsendur... hafa þeir verið að kippa að sér höndum?

„Nei, alls ekki, þvert á móti, heldur hafa aukist auglýsingar en hitt. Og tónlistarmenn hafa haft samband og látið okkur vita að við megum spila þá til æviloka.“

Já, hverjir þá?

„Tjahhh, Bjarki Ólafsson þessi ungi maður sem ég var að spila í gær, og náði víst miklum vinsældum á rás 2. Sem dæmi.“

Þóra Arnórsdóttir er ein þeirra sem að sögn Arnþrúði vill helst ekki viðurkenna tilvist hennar.
Arnþrúður ítrekar að hún upplifi sig ekki sem fórnarlamb en nefnir sem dæmi að hún hafi verið einn af stofnendum Rásar 2, og þegar haldið var uppá 35 ára afmæli þeirrar útvarpsstöðvar hafi ekki mátt nefna þá staðreynd aukateknu orði. „Það hefur reynst mönnum erfitt að viðurkenna að það sé kona sem á og stjórnar fjölmiðli. Þetta hefur komið margoft fram í umræðunni, sérstaklega þegar sagt er að það séu bara karlar sem stjórna fjölmiðlum. Við njótum ekki sannmælis.“

Missti framan af hendi við lögreglustörf

Arnþrúður segist hafa fundið persónulega fyrir því lengi, að henni sé haldið utan umræðunnar. „Það hefur ekki mátt viðurkenna að hér væri kona að stjórna ljósvakamiðli og væri eigandi. Rásar 2 dæmið er ágætt.  Ég var formaður landsliðsnefndar kvenna í handboltanum, á það hefur alls ekki mátt minnast á það. Ég var landsliðsmaður í tíu ár þar til ég missti framan af hendinni við störf sem lögreglumaður. Ekki mátti minnast á það hjá Þóru litlu Arnórs þegar hún var að fjalla um upphaf lögreglukvenna, en ég og Björg Jóhannesdóttir vorum dúxar úr lögregluskólanum þegar fyrstu lögreglukonurnar voru útskrifaðar. Við vorum gerðar að varðstjórum. En, við pössuðum ekki inní prógrammið, því við sögðum að þetta hefði ekki verið erfitt.“

„Kerlingapólitík“ sem ekkert vill af Arnþrúði vita

Arnþrúður segir að þegar hún hugsi til baka, en hún sé nú ekkert í því daglega að rifja þetta upp, þá séu dæmin mýmörg. „19. júní, á Kvenréttindadaginn sjálfan, var Þóra Arnórsdóttir með þátt með Vigdísi Finnbogadóttur og Jóhönnu Sigurðardóttur og þá var talin ástæða til að garga það að það væri enginn kona útvarpsstjóri á Íslandi. Muna menn eftir þessu? Svona er nú þessi kerlingapólitík. Reynt að þagga niður staðreyndir og alvarlegt þegar Ríkisútvarpið gerir svo.“

Arnþrúður segist ekkert ein í veröldinni og margir vina hennar og félaga hafa oft staðið agndofa gagnvart þessari staðreynd; að hún fái ekki að njóta sannmælis.

„En, ég hef oft verið undir í hálfleik og veit sem er að þetta snýst um að klára leikinn.“

Staðan er þessi -- Sem höfundur kennistefa Útvarp sögu hef ég sett mig í samband við STEF og farið fram á að bann verði...

Posted by Biggi Tryggva on 24. september 2015

Tengdar fréttir

Bubbalög komin á bannlista

Einn tónlistarmaður hefur leitað til STEFs og farið fram á að tónlist hans verði ekki framar spiluð á Útvarpi Sögu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×