Innlent

Gert skylt að taka hallarekstur með sér

Sveinn Arnarsson skrifar
Afkoma borgarsjóðs hefur verið gagnrýnd undanfarið og afkoman fyrstu sex mánuði ársins var langt undir væntingum.
Afkoma borgarsjóðs hefur verið gagnrýnd undanfarið og afkoman fyrstu sex mánuði ársins var langt undir væntingum. vísir/gva
Sviðum og stofnunum innan Reykjavíkurborgar verður gert að bera ábyrgð á rekstri sínum með því að taka halla eða afgang með sér frá fyrra fjárhagsári yfir á það næsta. Verði halli á einhverjum málaflokkum þurfa þeir að mæta hallanum á næsta ári. Þetta var samþykkt í borgarráði í gær.

„Eðlilegt er að svið og stofnanir sem koma vel út eða halda vel utan um reksturinn njóti ágóðans af því en þeir sem ekki standa sig vel verða þá að bera ábyrgð á þeim rekstri,“ segir Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi. Hún segir þessa reglu tilkomna vegna aðhaldsaðgerða Reykjavíkurborgar.

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir þetta geta orðið heillavænlegt skref en bendir á að rekstur borgarinnar hafi ekki staðist væntingar. „Ég tel mikilvægt að vera með einhverjar slíkar reglur. Það er samt ekki nóg að afgreiða ársreikning og yppa öxlum yfir lélegum rekstri síðustu 12 mánaða. Það verður að grípa strax inn í og þar tel ég að svona reglur séu hjálplegar við. Þess vegna styð ég að þær séu settar en áskil mér allan rétt til að kalla eftir breytingum á þeim ef þær virka ekki sem skyldi,“ segir Halldór. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×