Innlent

Ók á Nesjavallaæðina eftir að sauðfé fipaði hann við akstur

Birgir Olgeirsson skrifar
Ökumaðurinn slapp ómeiddur frá þessu slysi.
Ökumaðurinn slapp ómeiddur frá þessu slysi. Eiríkur S. Aðalsteinsson
Ökumaður slapp ómeiddur þegar hann ók á Nesjavallaæðina í nótt eftir að sauðfé hafði fipað hann við akstur. Tjón varð á heitavatnslögninni en leki kom ekki að henni.

Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kom fram að bíllinn var óökufær og þurfti bílstjórinn að ganga nokkurn spöl áður en hann komst í farsímasamband til að gera viðvart. Hann gaf lögreglunni skýrslu um óhappið í nótt, þegar ættingi hafði sótt hann á slysstað.

Um Nesjavallaæð renna allt að 1,5 tonn á sekúndu af 85 gráðu heitu vatni og myndi sá sem yrði fyrir því slasast lífshættulega. Hitaveita Orkuveitu Reykjavíkur á höfuðborgarsvæðinu sækir um 40 prósent af heita vatninu í Nesjavallavirkjun.

Orkuveita Reykjavíkur segir að nokkrum sinnum hefur verið ekið á lögnina á síðustu árum, en það hefur jafnan verið að vetrarlagi, annað hvort í hálku eða í miklum snjó. Það varð til þess að nú lokar Vegagerðin veginum yfir veturinn og hann ekki ruddur.

Veitumenn voru kallaðir til þegar bíllinn var fjarlægður í morgun og tók Eiríkur S. Aðalsteinsson vélstjóri myndirnar sem fylgja fréttinni.

Eiríkur S. Aðalsteinsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×