Innlent

Nýstárlegur völlur við Smáraskóla stórbætir aðstöðu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Nýstárlegur körfuboltavöllur við Smáraskóla með plöstuðu götuðu undirlagi sem hleypir vatni hraðar frá hefur stórbætt aðstöðu fyrir körfuboltakrakka í Kópavogsdal. 

Það er Kópavogsbær sem lagði út fyrir vellinum og kostnaður hleypur á sjö milljónum króna. Völlurinn er með sérstöku undirlagi úr plasti sem hrindir frá snjó og vatni og mun betra gripi en malbik. Því er um stórbætta aðstöðu að ræða fyrir börnin.

Jón Finnbogason, formaður íþróttaráðs Kópavogsbæjar, segir að hugmyndin hafi kviknað þegar sjálfstæðismenn í bænum voru að ræða saman um hvernig mætti bæta aðstöðu fyrir körfuboltann. Þessu hafi verið lofað fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 2014 og menn séu að efna það loforð nú. Jón segir að opnun þessa vallar sé bara byrjunin en góð reynsla sé af sambærilegum velli á Sauðárkróki. Góð nýting verði á hverja krónu og sjö milljónir króna þyki ekki mikið miðað við hvað völlurinn verður notaður mikið. 

Hér er það sveitarfélagið Kópavogsbær sem er sjálft að leggja út fyrir þessu til að efla körfuboltann í bænum ólíkt uppbyggingu sparkvalla víðs vegar um landið sem fjármagnaðir voru af KSÍ fyrir nokkrum árum fyrir fótboltann. 

Sjá má í myndskeiði viðtöl við ungmenni í körfuknattleiksdeild Breiðabliks sem eru afar ánægð með stórbætta aðstöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×