Sport

Julio Jones frábær í naumum sigri Atlanta Falcons

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Julio Jones skorar hér snertimark númer tvö í gær.
Julio Jones skorar hér snertimark númer tvö í gær. Vísir/Getty
Atlanta Falcons byrjaði tímabilið á dramtískum sigri á Philadelphia Eagles í NFL-deildinni en fyrstu umferðinni lauk í gær. Sparkari Eagles klúðraði vallarmarkstilraun fyrir sigrinum þegar tæplega tvær og hálf mínúta voru eftir.

Heimamenn í Falcons voru mun betri framan af og náðu að stöðva hraðan sóknarleik gestanna frá Philadelphia. Fengu Falcons tvö snertimörk frá stjörnuleikmanni liðsins, Julio Jones og virtist ekkert benda til þess að þetta yrði spennandi í stöðunni 20-3 í hálfleik.

Gestirnir frá Philadelphia náðu hinsvegar yfirhöndinni í leiknum í þriðja og fjórða leikhluta og sóttu stíft á Atlanta vörnina með hröðum sóknarleik sínum.

Náðu gestirnir frá Eagles forskotinu í fjórða leikhluta eftir tvö snertimörk frá DeMarco Murray og eitt frá Ryan Matthews.

Það var hinsvegar Matt Bryant, sparkari Atlanta Falcons, sem var á endanum hetjan, er hann skilaði vallarmarki þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum.

Í Kaliforníu mættust San Fransisco 49ers og Minnesota Vikings í seinni leik kvöldsins. Sóknarleikur gestanna frá Minnesota náði sér aldrei á strik og unnu 49ers öruggan 20-3 sigur.

Hlauparinn Carlos Hyde skoraði snertimark undir lok fyrri hálfleiks og bætti hann við öðru í fjórða leikhluta sem tryggði sigurinn. Náði sóknarlína Minnesota sér aldrei á strik í leiknum en liðið skoraði aðeins eitt vallarmark í leiknum.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×