Innlent

Pasta á undir högg að sækja

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Uppskriftir er pastaréttum má finna í ritum frá 1. og 2. öld.
Uppskriftir er pastaréttum má finna í ritum frá 1. og 2. öld.
Sala á pasta hefur dregist mjög mikið saman á heimsvísu, að því er fram kemur í Washington Post.

Í umfjöllun um málið á vefsíðu Wapo er greint frá því að skýringanna sé aðallega að leita útbreiddri skoðun fólks að pasta, eða einföld kolvetni, séu fitandi. Þannig er lagt að fólki í vinsælum megrunarkúrum eins og South Beach mataræðinu og lágkolvetnamataræðinu, að skera niður einföld kolvetni eins og pasta og annað hvítt hveiti. Þá nýtur glútenskert mataræði aukinna vinsælda þótt engar rannsóknir eða vísindi staðfesti skaðsemi glútens fyrir aðra en þá sem eru með glútenóþol. 

Frá 2008 hefur sala á pasta dregist saman um 12 prósent í Þýskalandi og 15 prósent í Grikklandi. Í Bandaríkjunum hefur sala á þurru pasta dregist saman um 6 prósent og 9 prósent í Ástralíu. Meira að segja á Ítalíu, heimalandi pasta, hefur salan dregist saman um fjórðung frá 2009.

Pasta hefur verið vinsæll matur í mörg hundruð ár en uppskriftir að pastaréttum í þeirri mynd sem nútímamenn þekkja má finna í ritum frá 1. og 2. öld. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvers vegna það tók menn tæplega tvö þúsund ár að átta sig á því að pasta væri óhollt, ef það er yfirleitt jafn óhollt og menn vilja vera láta. 

Í pasta er að finna hátt hlutfall af einföldum kolvetnum sem brotin eru niður í sykrur í meltingarveginum og þaðan frásogaðar út í blóðrásina sem svo hækkar blóðsykurinn. Svar líkamans við þessu er að sleppa insúlíni og koma jafnvægi á blóðsykurinn. 

Blóðsykurshækkunin hefur lengi verið talin helsti ókosturinn við að neyta einfaldra kolvetna í of miklum mæli og þar af leiðandi pasta.

Sérfræðingar í næringarfræði telja hins vegar að kolvetnin séu ekki vandamálið heldur ofneysla þeirra, rétt eins og þegar aðrar fæðutegundir eru annars vegar.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×