Innlent

„Hefði ef til vill verið betra fyrir mig persónulega ef ég hefði tapað“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að það hafi oft hvarflað að honum hvort að hann sé vandamálið í samhengi við mikið fylgistap flokksins síðustu misseri. Mörgum er eflaust í fersku minni landsfundur Samfylkingarinnar fyrr á árinu þar sem Árni Páll rétt marði sigur á Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur í formannskjöri.

Auðvitað hefði ef til vill verið betra fyrir mig persónulega ef ég hefði tapað en ég vann og ég verð að axla þá ábyrgð á því að ég hef umboðið og þá skiptir máli hvað þú gerir við það, sagði Árni Páll í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun og bætti við:

Ef ég teldi að ég væri vandamálið og að aðrir flokkar væru ekki í neinum vanda þá væri það augljóst að lausnin hlyti að vera að ég stígi til hliðar. Það eru allir grónir flokkar í þessum vanda og flokknum var að ganga ágætlega undir minni forystu alveg þangað til… það byrjar að halla undan fæti um áramótin og svo sunkum við hressilega eftir landsfund.

Árni Páll sagði að hans mati væri fylgishrun flokksins tilkomið vegna víðtækrar vantrúar almennings á hefðbundnum stjórnmálum. Það væri því verkefni hans sem formanns Samfylkingarinnar að leggja fram hugmyndir um það hvernig flokkurinn getur brotist út úr þeirri stöðu.



Hvernig flokkurinn slíti af sér viðjar hins hefðbundna stjórnmálaflokks, breikki sig, opni sig, bjóði fleirum til samstarfs, hætti að tala eins og gamaldags, hefðbundinn stjórnmálaflokkur og að það sé besta framlagið sem ég geti gefið Samfylkingunni. Eftir stendur hins vegar að þetta snýst ekki um mig og það verður tækifæri til þess að fram fari allsherjar atkvæðagreiðsla um formann fyrir næstu kosningar. Þannig að ég mun þurfa að sækja mér umboð ef aðrir gefa kost á sér til formennsku.

Viðtal Sigurjóns M. Egilssonar við Árna Pál má hlusta í heild sinni í spilaranum hér að ofan en þeir ræða meðal annars mikla fylgisaukningu Pírata og gjaldmiðilsmál.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×