Körfubolti

Jón Arnór: Við pabbi förum bókað til Frakklands á næsta ári

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska körfuboltalandsliðið átti frídag í dag sem kom sér vel eftir tvo hörkuleiki gegn Þýskalandi og Ítalíu. Strákarnir lögðu mikið í leikina sem töpuðust því miður báðir.

„Hann [dagurinn í dag] var mjög nauðsynlegur fyrir alla. Við nýttum hann vel. Við tókum smá jóga, smá afslöppun og þeir sem vildu skjóta gerðu það,“ sagði Jón Arnór við Vísi í dag.

„Við sem spiluðum fleiri mínútur fengum að hvíla í dag. Þetta var mjög góður hvíldardagur.“

„Það er búið að fara mikil orka í þetta. Það er ekkert grín að vera að glíma við þessa risa. Það var gott að kúpla sig aðeins út í dag.“

Þegar menn eru búnir að vera lengi og mikið lokaðir inni á hóteli er gott að brjóta upp stórmót eins og EM og komast út að hitta vini og ættingja.

„Ég fór og hitti fjölskylduna sem er hér í Berlín og fékk mér kaffi með henni. Maður varð aðeins að kúpla sig út úr hótelinu. Þetta var góður og nauðsynlegur hvíldardagur í alla staði,“ sagði Jón Arnór, en hvernig er hann eftir þessa fyrstu tvo leiki?

„Ég er mjög stífur en ég verð fínn á morgun. Ég er miklu betri í dag en ég bjóst við. Ég var svolítið skakkur í gærkvöldi en er eiginlega mun betri en ég hafði vonast.“

Strákarnir okkar fylgdust með strákunum okkar tryggja sér farseðilinn á EM í fótbolta í gær og voru ánægðir með sína menn.

„Ég náði seinni hálfleiknum. Þetta var nú ekkert rosalega skemmtilegur leikur, en það var rosalega góð tilfinning þegar leikurinn var flautaður af. Ég segi bara aftur til hamingju drengir. Maður er að rifna úr stolti,“ sagði Jón Arnór sem veit hvar hann verður í júní á næsta ári.

„Þetta er æðislegt. Við pabbi erum að fara til Frakklands á næsta ári. Það er bókað,“ sagði Jón Arnór Stefánsson.


Tengdar fréttir

Helgi Már: Við ætlum að vinna leiki hérna

Íslenska körfuboltalandsliðið hefur tapað tveimur fyrstu leikjum sínum á Evrópumótinu í körfubolta en í bæði skiptin voru þetta naum töp á móti stórþjóðunum Þýskalandi og Ítalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×