Körfubolti

Íslenska landsliðið slappaði algjörlega af á æfingu í dag | Fóru í jóga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásdís Þorgilsdóttir og íslenska landsliðið út á miðju gólfi í Mercedens Benz höllinni í dag.
Ásdís Þorgilsdóttir og íslenska landsliðið út á miðju gólfi í Mercedens Benz höllinni í dag. Vísir/valli
Íslenska körfuboltalandsliðið fékk tækifæri til að slaka vel á þegar liðið var á æfingu í Mercedens Benz höllinni í Berlín. Í dag var hvíldardagur hjá íslenska liðinu á Evrópumótinu og það var hugað vel að andlega þættinum á einu æfingu dagsins.

Ástæðan fyrir afslöppuninni var að Körfuknattleikssambandið fékk Ásdísi Þorgilsdóttur til að fara með allt liðið í jóga.

„Hún er búin að taka liðið nokkrum sinnum í jóga í sumar og það var tilvalið að fá hana til að hjálpa okkur með þetta þar sem að hún var á svæðinu," segir Finnur Freyr Stefánsson, aðstoðarþjálfari íslenska liðsins.

Ásdís Þorgilsdóttir, sem á sínum tíma lék knattspyrnu með Keflavík og KR, er íþróttakennari og eiginkona Gunnars Einarssonar, styrktarþjálfara íslenska liðsins. Ásdís stýrði jóga og afslöppun strákanna út á miðju gólfi í hinni glæsilegu Mercedens Benz höll.

Það var mjög sérstök sjón fyrir íslensku blaðamennina þegar þeir fengu að fara inn í höllina í dag og þar blasti við allt íslenska liðið liggjandi út á miðju gólfi. Ásdís þekkir vel til þessa hluta enda starfar hún sem bæði einkaþjálfari og jógakennari.

„Það er lítið sem við getum gert á frídeginum. Strákarnir sem hafa verið að spila minna tóku þátt í hörkuæfingu, aðrir eru að hvíla og sumir eru með þau skilaboð að þeir eigi ekkert að hreyfa sig,“ sagði Finnur.

Íslenska landsliðið mætir Serbíu á morgun en það er þriðji leikur liðsins á Evrópumótinu. Leikurinn hefst klukkan 14.30 að staðartíma eða klukkan 12.30 að íslenskum tíma.


Tengdar fréttir

Logi: Vöðum bara óhræddir í Serbana

Logi Gunnarsson og félagar í íslenska körfuboltalandsliðinu hafa staðið sig vel í tveimur fyrstu leikjum sínum á Evrópumótinu í körfubolta.

Fór í ísbað eftir leikinn

Jón Arnór Stefánsson er í risastóru hlutverki hjá íslenska landsliðinu á Evrópumótinu og það er mikið álag á besta leikmanni liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×