Körfubolti

Vítanýtingin svíður | Ísland með eina lélegustu vítanýtinguna á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel Ermolinskij á vítalínunni.
Pavel Ermolinskij á vítalínunni. vísir/valli
Íslenska körfuboltalandsliðið hefur staðið sig frábærlega í fyrstu tveimur leikjum sínum á Evrópumótinu í körfubolta í Berlín en það er helst á einum stað þar sem hægt er að gagnrýna íslensku strákana.

Ísland er nefnilega í 20. sæti í vítanýtingu af þeim 24 liðum sem taka þátt í úrslitakeppninni í ár. Það er víst ekki hægt að kenna sentímetrunum um þá tölfræði.

Íslensku strákarnir hafa aðeins nýtt 61 prósent víta sinna eða sett niður 25 víti af 41. Þessi tölfræði þýðir að íslenska liðið hefur klikkað á sextán vítum í þessum fyrstu tveimur leikjum sínum en liðið hefur tapað þessum leikjum bara með samtals þrettán stigum.

„Það er svolítið erfitt að horfa upp á okkur klikka á vítaskotunum. Það svíður svolítið," sagði Logi Gunnarsson eftir leikinn á móti Ítölum þar sem íslenska liðið hækkaði þó vítanýtinguna frá því í fyrsta leiknum við Þjóðverja.

Íslenska liðið nýtti 68 prósent víta sinna á móti Ítölum (13 af 19) en aðeins 55 prósent víta sinn í Þýskalandsleiknum (12 af 22) þar sem leikmenn íslenska liðsins klikuðu á tíu vítum í sex stiga tapi.

Jón Arnór Stefánsson stendur hinsvegar fyrir sínu á vítalínunni en hann hefur hitt úr 7 af 8 vítum sínum sem gerir 87,5 prósent vítanýtingu. Haukur Helgi Pálsson er með 83 prósent vítanýtingu (5 af 6) og þeir Jakob Örn Sigurðarson og Martin Hermannsson hafa nýtt bæði vítin sín.

Restin af íslenska liðinu hefur því aðeins hitt úr 9 af 23 vítaskotum sínum sem þýðir bara 39 prósent vítanýtingu hjá stórum hluta leikmanna Íslands á Evrópumótinu til þessa.

Íslensku strákarnir munu örugglega æfa vítin á æfingum sínum fram að leiknum við Serbíu sem fer fram á morgun og hefst klukkan 12.30 að íslenskum tíma.


Tengdar fréttir

Hundrað þristar hjá Jóni Arnóri

Jón Arnór Stefánsson varð í gær þriðji leikmaður landsliðsins til að setja hundrað þriggja stiga körfur í búningi íslenska landsliðsins.

Áttum aftur möguleika að vinna gegn Ítalíu

Íslenska körfuboltalandsliðið hefur unnið hug og hjörtu margra með frammistöðu sinni í fyrstu tveimur leikjum sínum á Evrópumótinu í Berlín þrátt fyrir tvö naum töp. Liðið stóð vel í hárinu á Þýskalandi og Ítalíu í fyrstu tveimur leikjum liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×