Innlent

Stefnir í metár hælisumsókna á árinu

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Múslimskar konur kæla sig í Jónahafi nærri Saranda í Albaníu.
Múslimskar konur kæla sig í Jónahafi nærri Saranda í Albaníu. vísir/epa
„Allt útlit er fyrir að árið 2015 verði metár í hælisumsóknum á Íslandi,“ segir í umfjöllun á vef Útlendingastofnunar. Frá ársbyrjun og til ágústloka höfðu 154 einstaklingar sótt hér um hæli, sem er sagt 66 prósenta aukning frá fyrra ári. Þá höfðu á sama tíma borist 93 hælisumsóknir.

„Í ágúst sóttu 49 manns um hæli á Íslandi en það eru jafn margir og sóttu um samtals síðustu þrjá mánuðina á undan,“ segir á vef stofnunarinnar og einnig bent á að árið 2009 hafi 35 manns sótt hér um hæli.

Umsækjendur eru af 32 þjóðernum og einn ríkisfangslaus. „Albanar eru langfjölmennastir og telja 51 umsækjanda, rétt tæplega þriðjung allra umsókna.“ Í öðru sæti eru Sýrlendingar, 18 talsins eða 12 prósent umsókna, en í Sýrlandi geisar borgarastyrjöld.

Útlendingastofnun áréttar að í ljósi borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi komi ekki til greina að vísa Sýrlendingum aftur þangað. „Sé hætta á að sýrlenskum umsækjendum sé vísað þangað, verði þeim snúið til annars Evrópuríkis, kemur ekki til greina að senda þá til viðkomandi ríkis.“

Í lok ágúst hafði Útlendingastofnun veitt 48 manns hæli eða aðra vernd á árinu. Fimmtíu var synjað um vernd en öðrum málum er sagt hafa lokið með öðrum hætti.

„Af þeim málum sem lauk með ákvörðun – þar sem umsækjandi dró umsókn ekki til baka eða lét sig hverfa – var veitt vernd í 35 prósentum tilfella. 36 prósentum mála lauk með synjun um hæli og ræður hið háa hlutfall umsækjenda frá Balkanskaga miklu þar um.“ Í 29 prósentum tilvika var fólk sent aftur til annars Evrópuríkis, ýmist samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni eða á grundvelli þess að umsækjandi hafði þegar fengið þar veitta vernd. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×