Innlent

Seldu eitur án þess að leyfi væru fyrir hendi

svavar hávarðsson skrifar
Kaupendur eiturefna vegna atvinnureksturs árið 2014.
Kaupendur eiturefna vegna atvinnureksturs árið 2014. fréttablaðið
Umhverfisstofnun komst að því í úttekt á sölu fjölmargra tegunda af eitri til að uppræta óæskilegan gróður, skordýr eða meindýr að rúmlega helmingur þeirra 202 einstaklinga sem keyptu slík efni á árinu 2014 í tengslum við atvinnurekstur sinn höfðu ekki til þess tilskilin leyfi. Alls voru seld rúmlega tíu tonn af þessum efnum til þessa hóps.

Samkvæmt efnalögum eru tveir flokkar af þessum efnum; þau sem almenningur getur keypt og hins vegar þau sem eru ætluð til notkunar í atvinnuskyni. Þau síðarnefndu fást aðeins keypt gegn notendaleyfi útgefnu af Umhverfisstofnun og sá sem þau selur ber ábyrgð á að umræddar vörur séu einungis afhentar þegar tilskildu leyfi er framvísað. Af þeim 202 sem keyptu vörurnar höfðu 87 aldrei haft tilskilið leyfi til kaupa á eiturefnunum. Til viðbótar voru leyfi 31 kaupanda runnin út.

Í gögnum Umhverfisstofnunar kemur ekki fram hversu mikið magn þeir keyptu sem voru leyfislausir en virk eiturefni samtals í þeim ellefu tonnum sem seld voru eru rúmt tonn; mest í sveppa- og illgresiseyði, þá skordýraeitri og langminnst í rottueitri eða innan við hálft kíló.

Úttekt Umhverfisstofnunar náði til átta verslana, en samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni hafa þær yfirgnæfandi markaðshlutdeild í sölu á þeim vörum sem hér um ræðir.

Björn Gunnlaugsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun sem annaðist rannsóknina, segir í skriflegu svari til Fréttablaðsins að engin eftirmál verði af þessu fyrir viðkomandi verslanir – hvorki leyfissvipting eða sektir. Þó eru í nýjum efnalögum [2013] skýrari heimildir en áður til að fylgja eftir lögum og reglum varðandi markaðssetningu þessara efna.

Spurður hvort ekki sé full ástæða til að tilkynna lögreglu um kaup og sölu eiturefna án tilskilinna leyfa segir Björn að lögreglu hafi ekki verið gert viðvart um niðurstöðurnar „því það var mat stofnunarinnar að ekki væri slík hætta á ferðum að efni stæðu til þess“.

Ekki þótti heldur tilefni til að innkalla efnin sem keypt voru án leyfis, enda það langt um liðið frá kaupum að líklegt sé að „í yfirgnæfandi tilfellum sé búið að nota vörunar í þeim tilgangi sem þeim er ætlaður enda einkum um að ræða vörur sem notaðar eru árstíðabundið, og þá á sumrin“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×