Innlent

Staðan í dag óásættanleg að mati Illuga

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Engin ein aðferð betri en önnur, segir Illugi sem skrifaði undir læsisátak í dag í samstarfi við Reykjavíkurborg.
Engin ein aðferð betri en önnur, segir Illugi sem skrifaði undir læsisátak í dag í samstarfi við Reykjavíkurborg. Visir/Ernir
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra hóf átak í dag til að efla læsi með því að undirrita sáttmála þar um við Reykjavíkurborg. Illugi og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undirrituðu sáttmálann í Borgarbókasafninu ásamt Sigríði Björk Einarsdóttur stjórnarmanni SAMFOK. Undirritunin markar upphaf átaks um allt land sem miðar að því að efla læsi allra barna á aldrinum 2-16 ára. 

Hann segir mikið í húfi að allir taki höndum saman í átakinu, engin ein aðferð sé betri en önnur.

„Við erum ekki með þessu átaki að leggja til einhverja eina aðferð við lestararkennsluna, heldur gerum samninga við sveitarfélögin um starfið inni í skólunum. Það er að segja þar sem ríkisvaldið menntamálaráðuneytið leggur til skimunarpróf og prófun á þeim og eins líka okkar ráðgjafa sem geta unnið með skólunum. Sveitarfélögin síðan setja sér læsisstefnu og markmið. Mörg þeirra hafa gert það nú þegar. Aðalatriði er að við tökum höndum saman, skólakerfið, stjórnmálamenn og foreldrar um að tryggja það að börnin okkar nái tökum á læsinu.“

Þetta er Illuga kappsmál og hann segir stöðuna í dag óásættanlega.

„Við höfum öll þá sýn að við lok grunnskóla eigi börnin okkar öll að eiga sömu tækifæri í lífinu óháð efnahag foreldra þeirra og félagsstöðu.  Það segir sig sjálft að barn sem getur ekki lesið sér til gagns við lok grunnskóla fær miklu færri tækifæri í lífinu en hin sem hafa gert það. Möguleikarnir til áframhaldandi mennta eru skertir ef krakkarnir hafa ekki náð  tökum á læsinu. Þetta er mér mikið hjartans mál og kappsmál að við náum tökum á þessu. Ég er líka þeirrar skoðunar að það sé óásættanlegt að 30% drengja geti ekki lesið sér til gagns við lok grunnskóla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×