Innlent

Hafa ákveðið að banna rútur í miðborginni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ákvörðun hefur verið tekin um að banna stórar rútur innan miðborgarinnar. 

Frá þessu greinir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í dag, meðal annars á Instagram-síðu sinni. 

Þar segir hann einnig að til athugunar sé að hefja notkun svokallaðra sleppistæða þar sem rútur geta sótt og skilað af sér farþegum.

Á myndinni sem hann deildi með skilaboðunum má sjá fyrirhugaða staðsetningu stæðanna en hún er hér látin fylgja með að ofan til glöggvunar. 

Mynd/dagur
Skilaboðin frá borgarstjóra haldast í hendur við fyrri yfirlýsingar hans en Dagur sagði í fréttabréfinu sínu fyrir helgi að hann hygðist funda með lögreglustjóra um málið í þessari viku.

„Ég man þegar það var ekki sála á Laugaveginum, sérstaklega þegar rigndi. Nú er hann troðfullur af fólki, hvernig sem viðrar. Með ferðamennskunni sprettur líka aukin þjónusta, fleiri búðir, fleiri kaffihús og veitingastaðir, þannig við njótum þeirra kosta sem ekki eru sjálfsagðar hjá ekki stærri borg en Reykjavík er.

Um leið þurfum við að átta okkur á þróuninni og stýra henni. Bann við stórum rútum í miðborginni mun vonandi taka gildi fljótlega en ég á fund með lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins um það mál í næstu viku,“ sagði Dagur B. Eggertsson af því tilefni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×